Fótbolti

Sú besta í heimi missir af Íslandsleik og jafn­vel báðum leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aitana Bonmatí hefur unnið Gullknöttinn síðustu þrjú ár.
Aitana Bonmatí hefur unnið Gullknöttinn síðustu þrjú ár. Getty/Fran Santiago

Spænska kvennalandsliðið í fótbolta sem og lið Barcelona verða án stærstu stjörnu sinnar næstu mánuðina.

Aitana Bonmatí fótbrotnaði á landsliðsæfingu á sunnudag. Hún hefur nú farið í aðgerð og staðfest er að hún verði frá keppni í langan tíma.

Spænska fótboltastjarnan hefur unnið Gullknöttinn síðustu þrjú ár.

„Aitana Bonmatí hefur gengist undir vel heppnaða aðgerð vegna brots á vinstri sköflungi. Áætlaður batatími er um fimm mánuðir,“ skrifar Barcelona á þriðjudag.

Bonmatí kláraði landsliðsæfinguna á sunnudag en fann til sársauka í fætinum eftir að hafa dottið illa. Röntgenmyndataka leiddi í ljós brot á sköflungi.

Leikmaður Barcelona er afar mikilvæg fyrir bæði félagslið sitt og landslið og hennar verður sárt saknað hjá báðum á komandi mánuðum.

Þessi 27 ára leikmaður sést ef til vill ekki aftur á vellinum fyrr en á næsta tímabili.

Spánn mætir Íslandi á heimavelli í undankeppni HM 3. mars næstkomandi og svo kemur Spánn í heimsókn á Laugardalsvöllinn 9. júní.

Það er öruggt að Bonmatí verður ekki með í fyrri leiknum og líklegast að hún taki enga áhættu með endurhæfingu sína og byrji ekki aftur að spila fyrr en næsta haust.

Það á hins vegar eftir að koma í ljós. Takist endurhæfingin vel og Barcelona kemst jafnvel í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor þá gæti hún komið til baka fyrir lok núverandi tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×