Lífið

Sögu­frægt hús falt fyrir tvö hundruð milljónir

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Húsið er við lækinn í Hafnarfirði.
Húsið er við lækinn í Hafnarfirði.

Við Lækjargötu í Hafnarfirði stendur hið glæsilega einbýlishús Þórsmörk. Húsið er 259 fermetrar að stærð á þremur hæðum og byggt árið 1927. Ásett verð er 199 milljónir króna.

Húsið vekur athygli fyrir stærð sína og staðsetningu við lækinn, en ekki síst vegna stórra stafa á framhliðinni sem sýna bæði nafn þess og byggingarár.

Gengið er upp steyptar tröppur inn á aðalhæð hússins, þar sem rúmgott hol með flísum á gólfi tekur á móti gestum. 

Stofa og borðstofa eru í opnu, samliggjandi rými með gegnheilu parketi í síldarbeinamynstri á gólfi. Franskir gluggar, gólflistar og rósettur gefa húsinu sjarmerandi og fágað yfirbragð.

Eldhúsið er opið við borðstofu, prýtt hvítri sérsmíðaðri innréttingu með góðu skápaplássi og borðplötu úr mahogny-við og náttúruflísum á gólfi.

Efri hæðin skiptist í rúmgott hjónaherbergi með fataherbergi innaf, barnaherbergi og flísalagt baðherbergi með baðkari. Á rishæðinni er sjónvarpshol með gluggum á tvo vegu og svefnherbergi, auk möguleika á öðru herbergi.

Í kjallara er rúmgott hol með skápum, stór stofa með herbergi innaf, baðherbergi með sturtuklefa og stór geymsla. 

Nánari upplýsingar um eignina má nálgast á fasteignavef Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.