Fótbolti

Stefán Ingi með tvö mörk og er í bar­áttu um gullskóinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Ingi Sigurðarson er einn heitasti framherjinn í norsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
Stefán Ingi Sigurðarson er einn heitasti framherjinn í norsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. andefjordfotball.no

Stefán Ingi Sigurðarson var á skotskónum með Sandefjord í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag en það fór ekki vel fyrir Íslendingaliðinu Brann á sama tíma.

Stefán Ingi hefur verið sjóðheitur í sumar og hann öðrum fremur tryggði Sandefjord 6-2 útisigur á Strömsgodset. Stefán skoraði tvö mikilvæg mörk í fyrri hálfleiknum en liðið keyrði svo yfir heimamenn í þeim síðari.

Stefán Ingi kom Sandefjord í 1-0 á 2. mínútu en heimamenn Strömsgodset svöruðu með marki. Evangelos Patoulidis kom Sandefjord í 2-1 á 27. mínútu.

Þannig var staðan þar til að Stefán kom Sandefjord tveimur mörkum yfir á 34. mínútu.

Strömsgodset minnkaði muninn í uppbótatíma fyrri hálfleiks en Jacob Hanstad skoraði fjórða mark Sandefjord á 71. mínútu.

Sandefjord bætti síðan við tveimur mörkum í lokin eftir að Stefán fór af velli.

Þetta voru langþráð mörk hjá okkar manni en Stefán hafði ekki skorað í síðustu fjórum leikjum.

Þessi tvö mörk þýða samt að hann er nú aðeins tveimur mörkum frá efsta sætinu í baráttunni um markakóngstitilinn. Stefán Ingi hefur skorað fimmtán mörk í 26 deildarleikjum á þessu tímabili.

Sandefjord er komið upp í fimmta sæti deildarinnar eftir þennan sigur.

Íslendingaliðið Brann varð að sætta sig við 4-0 skell á útivelli á móti Molde.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar voru reyndar í jafnri stöðu í hálfleik en fengu á sig þrjú mörk frá 54. til 75. mínútu. Mörk Molde skoruðu Emil Breivik, Oskar Spiten-Nysæter og Samukelo Kabini. Breivik skoraði fyrsta markið og lagði síðan upp næstu tvö. Sondre Milian Granaas skoraði fjórða markið í uppbótatíma.

Eggert Aron Guðmundsson var í byrjunarliði Brann.

Brann er í fjórða sæti deildarinnar en hefði komist upp í það þriðja með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×