Fótbolti

Cecilía hélt hreinu en Inter úr leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Inter keypti landsliðsmarkvörðinn Cecilíu Rán Rúnarsdóttur frá Bayern München í sumar eftir vel heppnaða lánsdvöl hennar hjá liðinu á síðasta tímabili. 
Inter keypti landsliðsmarkvörðinn Cecilíu Rán Rúnarsdóttur frá Bayern München í sumar eftir vel heppnaða lánsdvöl hennar hjá liðinu á síðasta tímabili.  getty/Antonino Lagana

Inter tókst ekki að vinna upp eins marks forskot Svíþjóðarmeistara Häcken í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópubikars kvenna í fótbolta. Liðin gerðu markalaust jafntefli í Mílanó í kvöld.

Häcken vann fyrri leikinn á sínum heimavelli í Gautaborg, 1-0, og því var ljóst að Inter þyrfti tveggja marka sigur til að komast áfram í átta liða úrslitin.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð venju samkvæmt milli stanganna hjá Inter og hélt marki sínu hreinu í kvöld.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var sömuleiðis í byrjunarliði Inter sem reyndi allt hvað það gat til að skora í leiknum í kvöld en án árangurs.

Fanney Inga Birkisdóttir var á varamannabekknum hjá Häcken sem hélt Inter í skefjum og svo fór að markið úr fyrri leiknum dugði sænska liðinu til að komast í næstu umferð.

Í átta liða úrslitunum mætir Häcken sigurvegaranum úr rimmu Breiðabliks og Fortuna Hjørring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×