Innlent

Dóra Björt hætt við formannsframboðið

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Dóra BJört er oddviti Pírata í Reykjavíkurborg.
Dóra BJört er oddviti Pírata í Reykjavíkurborg. Vísir/Anton Brink

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavíkurborg, hefur dregið framboð sitt sem formaður Pírata til baka. Hennar hugmyndir um breytingar á stefnu flokksins stuðli að óeiningu innan flokksins og dregur hún framboðið til baka til að stuðla að samstöðu.

„Ég steig fram og ákvað að vera fullkomlega heiðarleg með þær hugmyndir sem ég hef talið vera bestu leiðina áfram til uppbyggingar, því ég get aðeins leitt flokkinn í átt sem ég trúi á. Meðal þeirra eru samtal um nafnbreytingu og að vera áfram opin fyrir lausnum frá hægri og vinstri,“ skrifar Dóra Björt í færslu á Facebook þar sem hún greinir frá tíðindunum.

Dóra Björt upplifir að flokkurinn hafi stefnt meira til vinstri síðustu ár í stað þess að halda sig á miðjunni. Hún segir stefnu sína á miðjuna hafa valdið meiri skjálfta innan flokksins en hún hefði viljað og hafa nokkrir sagt úr flokknum vegna þessa.

„Mér þykir það miður. Ég ætlaði ekki að skapa óeiningu og sundrungu í flokknum og þvert á móti. Ég held ekki að það sé það sem flokkurinn þarfnast á þessum viðkvæma tímapunkti,“ segir Dóra Björt.

„Mér hugnast ekki að taka við formennsku í flokknum með breytingu að leiðarljósi við þessar aðstæður. Vegna þess að farsæl skref breytinga krefjast samstöðu og að fólk rói í sömu átt.“

Henni þyki vænt umhreyfinguna og þar sem að tveir aðrir flottir frambjóðendur hafi boðið fram krafta sína telur hún ekki þörf á sínum kröftum. Hún dragi framboð sitt því til baka til að stuðla að einingu og samstöðu innan flokksins en líka af virðingu við sín eigin gildi.

„Þetta gefur mér aukið svigrúm til að veita störfum mínum í borgarstjórn óskipta athyglu en þar eru verkin bæði brýn og mörg.“

Kosið í lok nóvember

Kjósa átti um formann þann 30. október og voru bæði Dóra Björt og Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, boðið sig fram til formanns. Vegna formgalla í fundarboði aðalfundarins þurfti að fresta kosningunni og boða til aukaaðalfundar þann 29. nóvember. 

Þetta er í fyrsta skipti sem Píratar hyggjast kjósa formann en hingað til hefur flokkurinnn verið formannslaus, hugmynd sem hann fékk í arf frá Borgarahreyfingunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×