Viðskipti innlent

Hall­grímur Örn og Bára Hlín til atNorth

Atli Ísleifsson skrifar
Hallgrímur Örn Arngrímsson og Bára Hlín Kristjánsdóttir.
Hallgrímur Örn Arngrímsson og Bára Hlín Kristjánsdóttir.

Gagnaversfyrirtækið atNorth hefur ráðið tvo nýja stjórnendur í þróunarteymi fyrirtækisins. Bára Hlín Kristjánsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður verkefnastjórnunar og vörustjórnunar og Hallgrímur Örn Arngrímsson forstöðumaður þróunar og afhendingar nýrra gagnavera á Íslandi.

Í tilkynningu segir að fyrir komuna til atNorth hafi Bára Hlín starfað hjá Sýn þar sem hún hafi verið forstöðumaður verkefnastofu og ferlaumbóta. 

„Þar áður starfaði hún hjá Marel og leiddi þar margvísleg umbótaverkefni. Þar áður vann hún á sviði markaðs- og sölumála í hugbúnaðarþróun og er meðstofnandi handverksbrugghússins Álfs.

Hallgrímur Örn kemur til atNorth frá Verkís þar sem hann starfaði frá 2016. Hann býr að yfir tveggja áratuga reynslu sem byggingarverkfræðingur og verkefnastjóri og kemur til með að bera ábyrgð á afhendingu nýjustu stækkana atNorth á Íslandi. Hallgrímur er með B-stig IPMA vottun í verkefnastjórnun og hefur stýrt fjölmörgum stórum verkefnum, meðal annars á Keflavíkurflugvelli og nýverið við kortlagningu sprungna í Grindavík fyrir Almannavarnir. Áður starfaði hann meðal annars hjá Sweco í Noregi og hjá verkfræðistofunni Eflu,“ segir í tilkynningunni. 

Bára Hlín er með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík 2019 og meistaragráðu í samanburðarbókmenntum frá Edinborgarháskóla 2007. BA námi í samanburðarbókmenntum lauk hún frá Háskóla Íslands 2005.

Hallgrímur Örn er með M.Sc. gráðu í byggingarverkfræði frá DTU, danska tækniháskólanum, 2009 og B.Sc. gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands 2003.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×