Lífið

Strákarnir úr Benja­mín dúfu sam­einuðust á ný

Atli Ísleifsson skrifar
 Hjörleifur Björnsson (Andrés örn), Sturla Sighvatsson (Benjamín dúfa), Gunnar Atli Cauthery (Roland dreki) og Sigfús Sturluson (Baldur hvíti) að sýningu lokinni í Smárabíói í kvöld.
Hjörleifur Björnsson (Andrés örn), Sturla Sighvatsson (Benjamín dúfa), Gunnar Atli Cauthery (Roland dreki) og Sigfús Sturluson (Baldur hvíti) að sýningu lokinni í Smárabíói í kvöld. Vísir/Atli

Strákarnir sem léku aðalhlutverkin í kvikmyndinni Benjamín dúfu – þeir Sturla Sighvatsson, Gunnar Atli Cauthery, Sigfús Sturluson og Hjörleifur Björnsson – hittust í Smárabíói í kvöld þegar kvikmyndin var tekin til sýninga á ný, þrjátíu árum eftir frumsýningu árið 1995.

Það urðu fagnaðarfundir enda höfðu þeir ekki hist allir saman síðan myndin var frumsýnd.

Kvikmyndin segir frá fjórum félögum á aldrinum tíu til tólf ára og sumri í lífi þeirra. Þeir stofna þá Riddarareglu rauða drekans þar sem þeir Benjamín dúfa, Róland dreki, Andrés örn og Baldur berjast gegn ranglæti með réttlæti.

Vísir/Atli

Fyrir sýninguna í kvöld héldu þeir Gísli Snær Erlingsson, leikstjóri myndarinnar, og Friðrik Erlingsson, handritshöfundur og höfundur bókarinnar sem myndin byggði á, stuttar ræður þar sem þeir minntust tökudaganna og þeirra áhrifa sem myndin hafði á þá sjálfa og áhorfendur myndarinnar.

Andrés örn, Roland dreki, Benjamín dúfa og Baldur hvíti í myndinni.Íslenski kvikmyndavefurinn

Að mynd lokinni fóru svo aðalleikararnir fjórir upp á svið við mikinn fögnuð áhorfenda og hélt Sturla, sem fór með hlutverk Benjamíns dúfu, stutta tölu.

Bókin Benjamín dúfa hlaut íslensku barnabókaverðlaunin árið 1992 og var tilnefnd til norrænu barnabókaverðlaunanna.

Íslenski kvikmyndavefurinn
Vísir/Atli
Friðrik Erlingsson rithöfundur ávarpaði gesti fyrir sýningu myndarinnar. Gísli Snær Erlingsson leikstjóri sömuleiðis. Vísir/Atli





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.