Fótbolti

Valdi Isak en ekki Gyökeres í fyrsta landsliðshópinn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak hefur misst af síðustu leikjum Liverpool en verður með sænska landsliðinu í komandi landsliðsglugga.
Alexander Isak hefur misst af síðustu leikjum Liverpool en verður með sænska landsliðinu í komandi landsliðsglugga. EPA/ADAM VAUGHAN

Arsenal-framherjinn Viktor Gyökeres verður ekki klár fyrir komandi leiki Svía í undankeppni HM í fótbolta og var því ekki valinn. Alexander Isak er hins vegar í hópnum.

Nýi landsliðsþjálfarinn Graham Potter kynnti sinn fyrsta hóp í dag en Svíþjóð mætir Sviss og Slóveníu í undankeppni HM í næstu viku.

Stjörnuframherjanum Gyökeres var skipt út af í hálfleik í leik Arsenal gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Hann glímir við vöðvameiðsli.

Liverpool-maðurinn Alexander Isak hefur aftur á móti glímt við meiðsli í læri og hefur ekki spilað síðan í 5-1 sigrinum á Eintracht Frankfurt fyrir tveimur vikum. Hann er þó klár í landsleikina.

„Alex er ekki tilbúinn til að spila tvo níutíu mínútna leiki, en hann er tiltækur,“ segir Potter á blaðamannafundi þar sem hann kynnti hópinn sinn.

Hinn fimmtugi Potter tók nýlega við af Jon Dahl Tomasson sem landsliðsþjálfari en Tomasson var rekinn eftir slæma byrjun Svía í undankeppni HM.

Svíþjóð er aðeins með eitt stig eftir fjóra leiki og þarf því að fara í umspil næsta vor til að reyna að tryggja sér sæti á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×