Fótbolti

Steini um mar­traðarriðilinn: „Ekki drauma­and­stæðingar“

Aron Guðmundsson skrifar
Ríkjandi heimsmeistarar Spánar og ríkjandi Evrópumeistarar Englands, auk Úkraínu, bíða Stelpnanna okkar í undankeppni HM 2027 í fótbolta.
Ríkjandi heimsmeistarar Spánar og ríkjandi Evrópumeistarar Englands, auk Úkraínu, bíða Stelpnanna okkar í undankeppni HM 2027 í fótbolta. Vísir/Samsett

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, segir það vissulega ekki vera draumastöðu að hafa dregist með ríkjandi heims- og Evrópumeisturum í riðil í undankeppni HM 2027, verkefnið sé þó ekki óyfirstíganlegt og spennandi tilhugsun sé að taka á móti stærstu stjörnum kvennafótboltans hér heima. 

Ísland verður í riðli með heimsmeisturum Spánar og Evrópumeisturum Englands í undankeppni HM kvenna í fótbolta á næsta ári og því óhætt að segja að Ísland hafi fengið martraðarriðil en fjórða liðið í riðlinum er svo Úkraína. 

„Þetta eru ekki draumaandstæðingarnir, heimsmeistarar Spánar  og Evrópumeistarar Englands en það kom að því að við myndum einhvern tímann dragast með þeim í riðil,“ segir Þorsteinn landsliðsþjálfari í samtali við íþróttadeild. 

Verkefnið verðugt en ekki óyfirstíganlegt, mestu máli skipti að enda í einu af þremur efstu sætum riðilsins. 

Þá sé það einkar spennandi tilhugsun að taka á móti stórþjóðunum hér heima og þeirra stórskotaliði, leikmenn í hæsta gæðaflokki. 

„Fyrir áhugafólk um kvennaknattspyrnu á Íslandi ætti það, að fá stærstu stjörnur kvennafótboltans. á heimsvísu hingað heim, að ýta undir það að fólk mæti á völlinn. Ég hef fulla trú á því að fólk fjölmenni, sýni stuðning í verki við okkur og horfi á þessar frábæru knattspyrnukonur.“  

Undankeppnin hefst í byrjun mars og er riðill Íslands í A-deild þar sem að efsta lið hvers riðils tryggir sér beint sæti á HM. Liðin í öðru, þriðja og fjórða sæti riðlanna fara í umspil og skiptir þar miklu máli að enda ekki í fjórða sæti riðilsins upp á erfiðleikastig umspilsins sem tekur við í kjölfarið. 

Nánari útskýringu á fyrirkomulagi komandi undankeppni má finna í eftirfarandi grein og nánar verður rætt við Þorstein landsliðsþjálfara í Sportpakkanum á Sýn í kvöld að loknum fréttum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×