Íslenski boltinn

Fanndís hefur ekkert heyrt frá Val og í­hugar að hætta

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fanndís á ferðinni í leik með Val gegn Breiðablik í fyrrasumar. Samningur hennar við félagið er útrunninn.
Fanndís á ferðinni í leik með Val gegn Breiðablik í fyrrasumar. Samningur hennar við félagið er útrunninn. vísir / ernir

Fanndís Friðriksdóttir gæti lagt skóna á hilluna. Samningur hennar rann út þegar nýafstöðnu tímabili lauk og stjórnarfólk Vals hefur ekki heyrt í henni til að endursemja. 

Fanndís spilaði alla 23 deildarleikina í sumar og skoraði 8 mörk. Hún var næstmarkahæst hjá Valsliðinu sem átti sitt versta tímabil í áraraðir og endaði í 6. sæti Bestu deildarinnar.

Í samtali við Vísi sagði Fanndís að samningur hennar hafi runnið út eftir tímabilið og hún hafi ekkert heyrt frá félaginu um endurnýjun. 

Valur hefur boðað breytingar að undanförnu og kynnt nýja stefnu, sem felst helst í því að efla grasrótarstarfið og gefa yngri leikmönnum tækifæri.

„Ég er orðin 35 ára þannig að ég passa kannski ekki inn í stefnuna“ sagði Fanndís í samtali við Vísi.

Fanndís hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um framhaldið en íhugar að hætta í fótbolta.

„Nú er ég bara á leiðinni í frí og ætla ekkert að hugsa um fótbolta á meðan en ég hef alveg hugsað um að kalla þetta gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×