Lífið

Fékk ekki að setja eigið nafn né dul­nefni á þættina sína

Jón Þór Stefánsson skrifar
Arnór Pálmi Arnarson og Dóra Jóhannsdóttir tóku við verðlaunum fyrir Húsó. Arnór var tilnefndur í flokknum leikstjóri ársins og þau Dóra saman fyrir handrit ársins 2024.
Arnór Pálmi Arnarson og Dóra Jóhannsdóttir tóku við verðlaunum fyrir Húsó. Arnór var tilnefndur í flokknum leikstjóri ársins og þau Dóra saman fyrir handrit ársins 2024. Mummi Lú

Nafn Dóru Jóhannsdóttur, eins handritshöfundar sjónvarpsþáttanna Húsó, birtist ekki á skjám landsmanna þegar þættirnir voru sýndir á Rúv í byrjun árs. Né birtist dulnefni hennar, Hekla Hólm, sem hún hafði beðið um að stílað yrði á þættina.

Þetta kemur fram í grein sem Dóra ritar á heimasíðu framleiðslufyrirtækis síns, Djok.is. Þar fjallar hún um það sem hún kallar kerfislæg vandamál sem tengjast þáttunum, bæði fyrir og eftir að þeir voru teknir upp.

Dóra segir að nafn hennar hafi fyrst birst opinberlega tengt þáttunum, eftir tveggja ára baráttu, þegar hún var tilnefnd til Íslensku sjónvarpsverðlaunanna fyrir besta handrit.

Þess má geta að síðastliðið fimmtudagskvöld hlaut Dóra, ásamt Arnóri Pálma Arnarsyni og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, þau verðlaun. 

„Húsó er sagan mín, byggir á minni eigin reynslu,“ sagði Dóra í þakkarræðu sinni.

Skaut á Baldvin Z

Dóra skaut jafnframt á kvikmyndagerðarmanninn Baldvin Z í ræðunni, en framleiðslufyrirtæki hans Glassriver framleiddi Húsó.

„Og svo bara langar mig til að segja sorrý Glassriver. Það er engin afsökun að ég fari á túr, stundum. Takk fyrir mig,“ sagði Dóra í ræðu sinni. Hún hefur síðan deilt myndbandi af atvikinu á Instagram, með tengil á grein sína.

Í ræðunni vísaði Dóra í ummæli Baldvins sem hann lét falla í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 á dögunum þar sem hann var að ræða um áskoranir kvikmyndaframleiðslu.

„Þú getur bara verið með konu sem er á túr og hún er í vondu skapi þennan dag. Við þurfum bara að díla við það á setti og einhvern veginn embrace-a það inn í verkið,“ sagði Baldvin.

Í kjölfarið gagnrýndu margir og hæddust að þessum ummælum hans, þar á meðal Dóra. Þess má geta að Baldvin brást við með því að segjast hjartanlega sammála gagnrýninni og lýsti eigin orðum sem „rasshausa-ummælum“.

Hekla Hólm myndi vekja upp fleiri spurningar en svör

Í grein sinni segir Dóra að fyrir frumsýningu þáttanna hafi beiðni hennar um að hún yrði „krediteruð” undir dulnefninu Hekla Hólm verið hafnað. Henni hafi verið sagt að það myndi vekja upp fleiri spurningar en svör, og að notkun dulnefna tíðkist ekki hér á landi.

Dóra segir það ekki satt.

„Á ferilskrá minni má hins vegar sjá vel þekkt dæmi um notkun dulnefna í bransanum á Íslandi. Stella Blómkvist er dulnefni höfundar samnefnds bókaflokks. Þrátt fyrir að ég hafi verið einn höfunda sjónvarpsseríunnar Stella Blómkvist 2, sem byggð var á bókunum, fékk ég aldrei að vita hver var á bak við dulnefnið,“ segir hún, og nefnir talsvert fleiri dæmi um notkun dulnefna á erlendri grundu.

Brotið gegn grundvallarforsendunni

Dóra segir að forsenda Húsó hafi verið skýr frá hennar hlið frá upphafi ferlisins, hún hafi viljað segja batasögu.

„Með því að miðla jákvæðum reynslusögum er fólki sem enn þjáist gefin von. Fólk þarf fyrirmyndir til að trúa því að bati sé yfirhöfuð mögulegur.“

Hún segir að í vinnuskjali hafi hugmynd að endalokum þáttanna verið eftirfarandi:

„Í lokin fær hún íbúð hjá Féló. Allt lítur vel út. Hún fær aukinn heimsóknarrétt með barninu sínu og möguleika á fullu forræði.“

Lokaniðurstaða handritsins hafi verið allt önnur, og í andstöðu við það sem Dóra lítur á sem grundvallarforsenduna.

„Í lokaútgáfu handritanna, sem ég fékk því miður ekki aðkomu að, hafði að mínu mati orðið algjör viðsnúningur á grundvallarforsendu verksins – og þeirri sögu sem ég vildi segja. Þrátt fyrir það voru nær allir karakterar, sambönd þeirra, söguþræðir, senur og fjölmörg smáatriði þau sömu og þegar ég vann að verkefninu,“ segir hún.

Miðlaði eigin reynslu

„Aðalsöguhetjan í Húsó fellur á einum tímapunkti, en sú hugmynd kom úr minni eigin reynslu af því að hafa sjálf fallið eftir meðferð. Í þáttunum sem birtust í sjónvarpinu er hún hins vegar stuttu seinna á leið í meðferð, sem var ekki mín hugmynd. Fyrir manneskju sem hefur farið oftar en einu sinni í meðferð á Íslandi getur biðtími eftir plássi verið margir mánuðir. Sú staðreynd hefur kostað ótal mannslíf og var ástæða þess að ég þurfti sjálf að lokum að fara til Svíþjóðar í meðferð,“ segir Dóra.

Með þessu hafi verið litið fram hjá raunverulegum kerfislægum vandamálum sem erfiðleikar persónanna byggi á.

„Í lokaþættinum var Hekla [aðalsögupersóna þáttanna] sýnd sem vonlaus fíkill á leiðinni í enn aðra meðferðina, en sú birtingarmynd staðfestir einungis þau skaðlegu viðhorf sem enn ríkja í samfélaginu, að fólki með fíknivanda sé einfaldlega ekki viðbjargandi og því óþarfi fyrir stjórnvöld að bregðast við með markvissum hætti,“ segir Dóra.

„Þar með glataðist dýrmætt tækifæri fyrir viðkvæman hóp sem þarf fyrst og fremst von, stuðning og áheyrn, ekki meiri útskúfun.“

Beiðnum hafnað

Dóra bendir á að í greinargerð með lögum um höfundarrétt komi fram að höfundur geti stöðvað sýningu á kvikmyndaverki sem byggi á handriti hans, ef upphaflegur tilgangur eða boðskapur verksins er afbakaður. Mótmæli hennar um slíkt hafi engan árangur borið.

Þá hafi hún farið fram á að nafni hennar og dulnefninu áðurnefnda yrðu bætt við tilnefningu til Nordic Series Script Awards. Þeirri beiðni hafi líka verið hafnað.

Dóra fjallar einnig um að skaða- og miskabætur fyrir brot á höfundarrétti séu svo lágar að vinni höfundur slíkt mál tapi hann þrátt fyrir það líklega á málarekstrinum. Þá hafni gjafsóknarnefnd dómsmálaráðuneytisins að taka að sér slík mál.

„Skilaboðin til skapandi listafólks án fjármagns eru skýr: það stendur varnarlaust gagnvart valdameiri aðilum sem geta gengið á réttindi þess, jafnvel í verkefnum sem eru að mestu leyti fjármögnuð með almannafé. Einstaklingar sem hafa ekki fjárhagslega burði til að sækja þann rétt sem þeir eiga samkvæmt lögum, standa því eftir án raunverulegra úrræða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.