Körfubolti

NBA-leikmaður með krabba­mein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Topic á enn eftir að spila fyrsta leik sinn í NBA með Oklahoma City Thunder en á samt einn meistarahring.
Nikola Topic á enn eftir að spila fyrsta leik sinn í NBA með Oklahoma City Thunder en á samt einn meistarahring. Getty/Joshua Gateley

Nikola Topic, bakvörður Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í körfubolta, hefur hafið krabbameinslyfjameðferð eftir að hafa greinst með eistnakrabbamein.

Sam Presti, framkvæmdastjóri Thunder, staðfesti þetta en sagði að læknar væru „einstaklega jákvæðir“ varðandi langtímahorfur Topic.

Topic var valinn tólfti í nýliðavali 2024 en var frá keppni á síðasta tímabili á meðan hann jafnaði sig eftir slitið krossband.



Topic gekkst undir aðgerð í byrjun október á MD Anderson-krabbameinsmiðstöðinni í Houston þar sem tekið var vefjasýni. Eftir að hafa fengið niðurstöðurnar bað leikmaðurinn Thunder um að greina ekki opinberlega frá greiningunni fyrr en hann hefði hafið krabbameinslyfjameðferðina.

Topic hefur getað æft á meðan hann er í krabbameinslyfjameðferð, en Presti sagði að engin tímaáætlun væri fyrir því hvenær þessi tuttugu ára serbneski bakvörður myndi leika sinn fyrsta leik í NBA.

„Einu væntingarnar sem við höfum til hans eru að hann einbeiti sér að þessu,“ sagði Presti. „Þetta er forgangsatriði hans. Hann mun snúa aftur í körfuboltann þegar hann getur, en við setjum augljóslega engan tímaramma eða væntingar á það. Hann hefur okkar fulla stuðning, hvatningu og ást.“

Topic vakti athygli fyrir það að verða NBA-meistari á síðustu leiktíð án þess að spila eina sekúndu allt tímabilið. Hann var í leikmannahópi meistaraliðsins en fékk aldrei að fara inn á völlinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×