Fótbolti

„Þolin­mæðis­verk á móti liði eins og Norður-Írlandi“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hlín Eiríksdóttir ræddi við Vísi á Hilton Nordica í dag.
Hlín Eiríksdóttir ræddi við Vísi á Hilton Nordica í dag. Sýn Sport

Hlín Eiríksdóttir segir Ísland búa yfir betra liði en Norður-Írland, það sé hins vegar mikið þolinmæðisverk að koma boltanum í netið. 

Klippa: Norður-Írar reyna á þolinmæði Hlínar

Ísland vann fyrri umspilsleik liðanna 2-0 í Norður-Írlandi á föstudag. Liðin mætast svo aftur á þriðjudag, þar sem ræðst hvort Ísland haldi sæti sínu í A-deild Þjóðadeildanna.

„Þetta var í fyrsta sinn í svolítinn tíma sem við stjórnum leiknum með bolta. Norður-Írland gaf okkur mikinn tíma til að halda í boltann og lögðust niður.

Það er erfitt að brjóta svoleiðis lið niður en við náðum að skora tvö góð mörk og koma okkur í góðu stöðu fyrir seinni leikinn“ sagði Hlín Eiríksdóttir á hóteli landsliðsins í dag, í aðdraganda leiksins gegn Norður-Írlandi á Laugardalsvelli næsta þriðjudag.

Miðverðirnir Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir sáu um að skora mörkin fyrir Ísland í fyrri leiknum og sóknarmennirnir mæta því hungraðir í næsta leik.

„Að sjálfsögðu, ég held að það sé alltaf hungur í öllum sóknarmönnum að skora mörk, en við skoruðum tvö mörk sem lið og það er allt sem skiptir máli.“

Ólafur Kristjánsson er nýráðinn aðstoðarþjálfari landsliðsins og kemur inn í þjálfarateymið með sérstaka áherslu á sóknarleik.

„Hann er búinn að hjálpa okkur að finna leiðir, þríhyrninga úti á köntunum, sem ég held að muni hjálpa okkur að skora fleiri mörk úr opnum leik“ segir Hlín og hefur trú á því að Ísland geti skorað úr opnum leik á þriðjudaginn, frekar en eftir föst leikatriði eins og á föstudaginn.

Hún segir Ísland betra lið en Norður-Írland.

„Það var ekkert mikil ógn af þeim. Við vorum fljótar að vinna boltann aftur þegar við töpuðum honum, en við getum gert betur. Fundið leiðir til að ógna enn betur að markinu þeirra, við vorum með boltann nánast allan leikinn og sköpuðum slatta af færum. Það síðasta er alltaf að koma boltanum í markið og það er þolinmæðisverk á móti liði eins og Norður-Írlandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×