Fótbolti

„Fram­tíðin er björt hérna á Skaganum“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Lárus Orri Sigurðsson sá til þess að Skagamenn héldu sæti sínu í efstu deild. 
Lárus Orri Sigurðsson sá til þess að Skagamenn héldu sæti sínu í efstu deild.  Vísir/Anton

Lárus Orri Sigurðsson tók við stjórnartaumunum hjá karlaliði ÍA í fótbolta í lok júní fyrr í sumar en þá var liðið í erfiðri stöðu á botni deildarinnar. Skagaliðið vann sigur gegn Aftureldingu í lokaumferð deildarinnar og kórónaði þar góðan lokakafla liðsins sem tryggir vera þeirra í efstu deild. 

„Þetta var góð frammistaða og flott svar við afar slökum leik á móti KA í síðustu umferð deildarinnar. Við vildum enda þetta á jákvæðum nótum og þetta var flottur lokapunktur á góðum endaspretti hjá okkur,“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, sáttur við gott dagsverk.

„Það voru margir leikmenn sem spiluðu vel í þessum leik. Ísak Máni og Haukur Andri voru flottir inni á miðsvæðinu og það var gaman að sjá Gabríel Snæ skora sitt fyrsta mark í efstu deild. Það var kominn tími á það eftir góða spilamennsku hans í undanförnum leikjum,“ sagði Lárus Orri um lærisveina sína.

Lárus Orri færði Rúnar Má í varnarlínuna hjá Skagaliðinu eftir hann tók við liðinu. Sú ákvörðun tókst vel upp og færði liðinu festu og ró í varnarleikinn: „Rúnar Már er auðvitað enginn miðvörður og hann var að spila sína fyrstu leiki svona aftarlega á vellinum.

Rúnar er bara svo reynslumikill leikmaður að hann leysti það verkefni bara frábærlega og þetta reyndist happadrjúgt.“

Lárus Orri framlengdi samning sinn við Skagamenn til ársins 2027 á dögunum og hann segir framtíðina vera bjarta á Skaganum:

„Við erum með ungt lið sem klárar þennan leik í dag og sem dæmi má nefna Jón Breka sem kom flottur inn á miðsvæðið. Félagið hefur sett markvissa vinnu í að ná í unga og efnilega leikmenn frá öllu landinu síðustu misseri og það er unnið gott starf hvað varðar unga og efnilega leikmenn sem vilja koma hingað í gott umhverfi. Nú tekur við nokkura daga frí hjá mér og svo fer ég að skipuleggja næstu leiktíð,“ sagði Lárus um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×