Fótbolti

Vinicius Juni­or bauð í svaka partý en gæti endað í fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinicius Junior bauð í svaka veislu en hún hefur jafnframt komið honum í mikil vandræði.
Vinicius Junior bauð í svaka veislu en hún hefur jafnframt komið honum í mikil vandræði. Getty/Masashi Hara

Brasilíska knattspyrnustjarnan Vinicius Junior er í vandamálum í heimalandinu. Real Madrid-stjarnan þarf að koma fyrir rétt í næsta mánuði.

Ástæðan er ólæti í veislu hans í Rio de Janeiro. Spænskir miðlar greina frá því að Vinicius Junior verði yfirheyrður fyrir rétti.

Þessi 25 ára gamli kantmaður hélt upp á afmælið sitt frá 19. til 21. júlí. Þetta varð að mjög villtu partíi sem fór úr böndunum og olli of miklum hávaða sem truflaði nágranna.

Herlögreglan var kölluð á staðinn og krafðist þess að tónlistin yrði lækkuð. Eftir að hún fór var tónlistin hækkuð aftur og náði að sögn vitna „gríðarlegum hæðum“.

Í 25 ára afmælisveislunni hans voru um fimm hundruð gestir, þar á meðal liðsfélaginn Eduardo Camavinga og brasilíska listakonan Anitta.

Nokkur tónlistaratriði voru flutt um kvöldið, heimsfrægi listamaðurinn Travis Scott var einn þeirra sem kom fram á sviði.

Gestir gátu einnig skemmt sér við flugelda og tívolítæki.

Fyrsta yfirheyrsla yfir Vinicius Junior fer fram 6. nóvember. Verði hann sakfelldur fyrir að raska friði á hann yfir höfði sér refsingu sem getur verið allt frá sektum til fangelsisvistar í 15 daga til þriggja mánaða.

Í átta leikjum í La Liga á þessu tímabili hefur hann skorað fimm mörk og gefið fjórar stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×