Erlent

Fyrstu sjö gíslarnir lausir úr prísund sinni

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fjöldi fólks er saman kominn á "gíslatorginu" í Tel Aviv og bíður þess að öllum verði sleppt. 
Fjöldi fólks er saman kominn á "gíslatorginu" í Tel Aviv og bíður þess að öllum verði sleppt.  AP Photo/Emilio Morenatti

Fyrstu sjö gíslunum sem verið hafa í haldi Hamas samtakanna á Gasa var sleppt í morgun og þeir afhentir starfsmönnum Rauða krossins á svæðinu.

Fólkið er í hópi 20 manns sem hafa verið í haldi Hamas allt frá árásunum 7. október 2023. Þeim verður nú sleppt á næstu klukkutstundum í samræmi við friðaráætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Fyrstu gíslarnir sjö eru nú komnir í hendurnar á Ísraelsher sem í staðinn mun láta tæplega 2.000 palestínska fanga lausa. Mikil fagnaðarlæti brutust út á hinu svokallaða gíslatorgi í Tel Aviv í Ísrael, en þar hafa fjölskyldur gíslanna komið saman til mótmæla síðustu mánuði.

Talið er að um 65 þúsund manns séu saman komnir á torginu. Á risaskjám á torginu hafa einnig verið sýnd myndskeið af gíslunum Matan Zangauker, Nimrod Cohen og David og Ariel Cunio þar sem þeir ræða við fjölskyldur sínar.

Þeir eru meðal þeirra þrettán sem enn eru í haldi Hamas.

Búist er við því að Trump forseti komi í stutta heimsókn til Ísraels nú í morgunsárið en hann er á leið á leiðtogafund í Egyptalandi síðar í dag ásamt fleiri þjóðarleiðtogum, þar sem friður á Gasa verður til umræðu. 


Tengdar fréttir

Vopnahlé tekur gildi

Ríkisstjórn Ísrael hefur staðfest samkomulag um vopnahlé á Gasaströndinni. Leiðtogar Hamas-samtakanna hafa einnig samþykkt samkomulagið og hefur vopnahlé því tekið gildi.

Von um frið en uggur um efndir

Yfirlýst samkomulag milli Ísraels og Hamas um fyrsta áfanga friðarsamninga hefur vakið vonir um tímamót á Gasa en margt er óljóst og framhaldið háð því að báðir aðilar standi undir væntingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×