Lífið

Gal­opnar sig og segist ætla að breyta hlutunum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Það fór vel á með Eugene Levy og Vilhjálmi Bretaprinsi.
Það fór vel á með Eugene Levy og Vilhjálmi Bretaprinsi. Apple

Vilhjálmur Bretaprins segist ætla að breyta breska konungsveldinu þegar hann verður konungur. Þetta kemur fram í viðtali sem hann veitti kanadíska leikaranum Eugene Levy í Windsor-kastala fyrir sjónvarpsþáttaröðina The Reluctant Traveller sem er úr smiðju Apple TV+-streymisveitunnar.

Breska ríkisútvarpið fjallar um viðtalið og hefur eftir innanbúðarfólki sínu innan úr höllinni að prinsinn hafi aldrei verið eins opinskár með framtíðarfyrirætlanir sínar. Vilhjálmur verður konungur þegar faðir hans, Karl konungur hinn þriðji, fellur frá. Karl er orðinn 76 ára gamall. Eugene Levy spurði prinsinn hvernig hann sæi fyrir sér tíð sína sem konungur.

„Ég held að það sé óhætt að segja það að breytingar séu á dagskránni,“ svaraði prinsinn. „Breytingar til hins betra, og ég fagna þeim, ég nýt þess. Ég óttast þær ekki, það er sá hluti sem ég er spenntur fyrir, hugmyndinni um að geta komið á einhverjum breytingum. Ekki of róttækum, en breytingum sem ég tel að þurfi að verða.“

Þá sýndi prinsinn kanadíska leikaranum Windsor-kastala. Þeir ræddu margt og mikið, prinsinn sagði leikaranum að hann væri aðdáandi American Pie kvikmyndabálksins þar sem Levy fór með stórt hlutverk. Þá ræddi hann sögu fjölskyldu sinnar.

„Ég held að ef þú passar þig ekki þá geti sagan reynst þér fjötur um fót og líkt og akkeri sem heldur aftur af manni og manni getur fundist það yfirþyrmandi, og fundist hún takmarka sig um of. Og ég held það sé mikilvægt að lifa í núinu, hér og nú.“

Þess er getið í umfjöllun breska ríkisútvarpsins að prinsinn hafi tekið fram að hefðir séu mikilvægar. Hann segist hins vegar óhræddur við að spyrja spurninga.

„Það koma tímar þar sem maður lítur á hefðir og spyr sig: Henta þær enn tilgangi sínum í dag? Er þetta enn það rétta í stöðunni? Erum við enn að gera það sem við gerum og hafa eins mikil áhrif og við gætum haft?“ spyr prinsinn. „Þannig að ég vil gjarnan efast um hlutina, það er það sem ég er í raun að reyna að segja.“

Leikarinn segist hafa verið hissa á því hvað prinsinn opnaði sig mikið. Ian Gavan/Apple TV+

Ræddi veikindin í fjölskyldunni

Þá eru leikarinn og prinsinn á persónulegu nótunum þar sem þeir rölta um ganga kastalans. Talið berst að fjölskyldunni, hvernig það hefur tekið á Vilhjálm að bæði faðir hans og eiginkona séu með krabbamein.

„Það sem tengist fjölskyldunni getur verið yfirþyrmandi, alveg töluvert. Þú veist, áhyggjur eða streita í kringum fjölskyldumálin – það er alveg yfirþyrmandi fyrir mig.“

Þeir koma sér næst í þættinum fyrir á knæpu skammt frá Windsor kastala, Two Brewers pub. Þar lýsir prinsinn því hvernig það var fyrir krakkana hans að takast á við veikindi móður sinnar.

„Við reynum að tryggja að við veitum þeim það öryggi og þá vernd sem þau þurfa,“ sagði hann við Levy. „Og við erum mjög opin fjölskylda, þannig að við tölum um það sem veldur okkur áhyggjum og það sem angrar okkur, en maður veit aldrei alveg hvaða afleiddu áhrif það getur haft. Og þess vegna er bara mikilvægt að vera til staðar fyrir hvort annað og hughreysta börnin og fullvissa þau um að allt sé í lagi.“

Prinsinn fór í síder, Eugene Levy í Guinness bjór.Ian Gavan/Apple TV+

Ekki fara í sömu aðstæður og með Harry

Vilhjálmur ræðir lítið sem ekkert í viðtalinu um samband sitt við bróður sinn Harry. Harry eins og lesendur muna eflaust eftir fluttur til Bandaríkjanna og hefur reglulega lýst því yfir að eiga í erfiðu sambandi við bróður sinn.

Prinsinn minnist þó á bróður sinn við Levy þegar hann er spurður út í það hvernig það var að alast upp í konungsfjölskyldunni. „Ég vona að við förum ekki aftur í sumt af því sem var í gamla daga, það sem ég og Harry ólumst upp við. Og ég mun gera allt sem ég get til að tryggja að við hverfum ekki aftur til þess ástands.“

Þá ræðir BBC við kanadíska leikarann vegna viðtalsins og segist Levy hafa verið hissa á því hvernig prinsinn hafi verið eins og opin bók. Hann segist hafa litið á þetta sem samræður en ekki endilega að þarna væru ný tíðindi, skúbb, á ferðinni.

„Hann sagði mér hvað honum gekk til og við gátum spjallað saman. Þetta var algjörlega súrrealískur dagur fyrir mig.“

Undir lok viðtalsins þegar prinsinn og leikarinn klára drykkina á knæpunni segist Vilhjálmur vilja skapa heim sem sonur hans geti verið stoltur af.

„Þú veist, lífið er líka til þess að reyna á okkur og það getur svo sannarlega verið krefjandi á köflum, og að geta sigrast á því er það sem gerir okkur að því sem við erum,“ segir prinsinn.

„Ég er svo stoltur af konunni minni og föður mínum fyrir hvernig þau hafa tekist á við allt síðasta ár. Börnunum mínum hefur líka gengið frábærlega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.