Fótbolti

FIFA: Donald Trump ræður engu um það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donald Trump með Gianni Infantino sem er forseti FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins.
Donald Trump með Gianni Infantino sem er forseti FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins. Getty/Richard Sellers

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði því á dögunum að færa leiki á HM í fótbolta frá borgum sem hann á í deilum við en hann hefur í raun ekkert vald til þess.

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur nú stigið fram og gefið það út það sé ekki Trump eða önnur stjórnvöld sem ráði því hvar leikirnir á HM. Sú ákvörðun liggur alfarið hjá FIFA.

Bandaríkjamenn halda HM í fótbolta næsta sumar í samstarfi við Kanada og Mexíkó.

Ellefu borgir í Bandaríkjunum fá að hýsa leik í keppninni. FIFA hefur gert samning við þessar borgir og brot á honum gæti kallað á allskyns vandræði, mikið flækjustig og aukinn kostnað. 

„Þetta er FIFA mót, FIFA ræður og það er FIFA sem tekur þessar ákvarðanir,“ sagði Victor Montagliani, varaforseti FIFA, á viðskiptaráðstefnu í London.

„Með fullri virðingu fyrir öllum þjóðarleiðtogum heimsins þá er fótboltinn stærri en þeir. Fótboltinn mun lifa lengur en þeirra valdatími, þeirra stjórnvöld eða þeirra slagorð. Þar liggur fegurðin í okkar leik. Hann er stærri en allir einstaklingar og stærri en allar þjóðir,“ sagði Montagliani sem er líka forseti Concacaf.

Trump notaði HM í fótbolta til að hóta borgum sem hann á í deilum við. Allt borgir sem eru undir stjórn demókrata.

Nú hefur FIFA afvopnað Trump þegar kemur að þessum hótunum en það er þó ekki góðvinur hans, Gianni Infantino, forseti FIFA, sem tjáir sig heldur varaforseti hans sem vill svo til að sé Kanadamaður. Trump hefur talað niður til Kanada og vill gera landið að 51. fylki Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×