Íslenski boltinn

Sjáðu Elmar skora beint úr horni, tvennu Freds og þrennu Her­manns

Sindri Sverrisson skrifar
Aftureldingarmenn fögnuðu með ungum aðdáendum eftir þriðja markið gegn KA í gær, í sigrinum mikilvæga.
Aftureldingarmenn fögnuðu með ungum aðdáendum eftir þriðja markið gegn KA í gær, í sigrinum mikilvæga. Sýn Sport

Elmar Kári Enesson Cogic skoraði afar dýrmætt mark með ótrúlegum hætti fyrir Aftureldingu gegn KA í gær, beint úr hornspyrnu, í Bestu deildinni í fótbolta. Mörkin úr leikjum gærdagsins má nú sjá á Vísi.

Víkingar geta gjörsamlega stungið af í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn, með sigri gegn Stjörnunni í kvöld, eftir að Valsmenn töpuðu 2-0 gegn Fram í Úlfarsárdal í gær. Það var hinn brasilíski Fred sem skoraði bæði mörk Fram, hans fyrstu í sumar, og var það seinna afar laglegt.

Valur og Stjarnan eru fjórum stigum á eftir Víkingi fyrir leikinn í kvöld en Fram tókst með sigrinum að jafna FH að stigum í 5.-6. sæti, fjórum stigum á eftir Breiðabliki þegar þrjár umferðir eru eftir.

Vestri er kominn í skelfileg mál eftir 5-0 risatap á heimavelli gegn ÍBV í gær, þar sem Hermann Þór Ragnarsson skoraði þrennu. 

Vestri er núna aðeins tveimur stigum frá fallsæti en ÍBV er aftur á móti komið upp fyrir KA og á toppinn í neðri hlutanum, eða í 7. sæti deildarinnar.

Afturelding vann sinn fyrsta sigur síðan í júní, þegar liðið vann endurkomusigur gegn KA í gær, 3-2. Mosfellingar eru enn í fallsæti en komu KR á botninn með sigrinum og eru tveimur stigum frá næsta örugga sæti.

Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA yfir með marki beint úr aukaspyrnu en Afturelding skoraði þrjú mörk á sex mínútna kafla, um tuttugu mínútum fyrir leikslok. 

Hrannar Snær Magnússon skoraði fyrst eftir magnað einstaklingsframtak og Elmar Kári skoraði svo markið ótrúlega beint úr hornspyrnu, áður en Hrannar bætti svo við sínu öðru marki. Ívar Örn Árnason hleypti aftur spennu í leikinn á 85. mínútu en þar við sat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×