Enski boltinn

Madueke frá í tvo mánuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Noni Madueke í leiknum gegn Manchester City.
Noni Madueke í leiknum gegn Manchester City. epa/VINCE MIGNOTT

Noni Madueke, leikmaður Arsenal, verður frá keppni næstu tvo mánuðina vegna meiðsla sem hann varð fyrir í jafnteflinu við Manchester City, 1-1, í fyrradag.

Madueke fór af velli í hálfleik í leiknum á Emirates. Eftir hann sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, að Madueke hefði fundið fyrir óþægindum í hné snemma leiks og ekki verið í ástandi til að halda áfram.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að meiðslin muni halda Madueke frá keppni í tvo mánuði. Talsverð meiðsli hafa herjað á Arsenal að undanförnu. Kai Havertz er að jafna sig eftir hnéaðgerð og fyrirliðinn Martin Ødegaard hefur misst af síðustu tveimur leikjum vegna meiðsla.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Bukayo Saka sneri aftur gegn City en hann kom inn á í hálfleik fyrir Madueke.

Arsenal keypti Madueke frá Chelsea fyrir tæplega fimmtíu milljónir punda í sumar. Hann þótti spila vel með enska landsliðinu í tveimur leikjum þess í undankeppni HM 2026 fyrr í mánuðinum.

Næsti leikur Arsenal er gegn Port Vale í 3. umferð enska deildabikarsins annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×