Sport

Lárus Orri: Fórum í „Fuck you mode“

Andri Már Eggertsson skrifar
Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, var ánægður eftir leik
Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, var ánægður eftir leik Vísir/Pawel Cieslikiewicz

ÍA vann 3-1 sigur gegn Aftureldingu á heimavelli í síðasta leik áður deildin skiptist upp í efri og neðri hluta. Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari ÍA, var afar ánægður með sigurinn.

„Við vorum of þungir í byrjun og leikurinn gegn Blikum sat aðeins í mönnum og það var erfitt að ná góðri pressu og mér fannst við alltaf eftir á í pressunni. Þegar við fengum boltann vorum við mistækir og það var eins og menn þurftu að hrista af sér leikinn gegn Blikum.“

„Svo er það oft þannig að eftir leik eins og á móti Blikum er erfitt að byrja þann næsta þar sem þú gerir ráð fyrir að þetta verði eins en þeir verða aldrei eins. En eftir þessar fyrstu 20-30 mínútúr var þetta aldrei spurning,“ sagði Lárus Orri í viðtali eftir leik.

Lárus var ánægður með að menn létu það ekki slá sig út af laginu að vera brenna af færum heldur kom markið að lokum.

„Það er komin trú í mannskapinn, það er góð stemning í hópnum og menn eru farnir að sjá hvað við þurfum að gera.“

Aðspurður út í hvað hefur breyst eftir landsleikjahlé þar sem ÍA hefur unnið tvo leiki í röð gegn Blikum og Aftureldingu sagði Lárus að spilamennska liðsins hafi gefið þetta til kynna fyrir landsleikjahlé.

„Ég sagði í viðtali þegar við vorum neðstir í deildinni að ég hefði ekki áhyggjur vegna þess hvernig liðið var að spila. Liðið var að spila vel svo kom kafli í kringum leikinn gegn Víkingi og ÍBV þar sem við drógumst langt aftur úr öðrum liðum. Það var erfitt fyrir hópinn og góður sérfræðingur á Sýn sagði að vera í botnbaráttunni ruglar í hausnum á þér og það gerir það.

Eftir leikinn gegn ÍBV tókum menn sig saman og afsakaðu orðbragðið fóru í „Fuck you mode“ þannig að við erum þar núna og ætlum að halda áfram,“ sagði Lárus Orri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×