Fótbolti

„Ís­land er eini ó­vinur okkar“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Didier Deschamps ræddi erjur franska knattspyrnusambandsins og PSG á blaðamannafundi. 
Didier Deschamps ræddi erjur franska knattspyrnusambandsins og PSG á blaðamannafundi.  Franco Arland - UEFA/UEFA via Getty Images

Didier Deschamps landsliðsþjálfari Frakklands hefur verið harðlega gagnrýndur af stórliðinu þar í landi, Paris Saint-Germain, fyrir að velja tvo leikmenn liðsins í landsliðshópinn. Deschamps segir þó engar erjur milli landsliðsins og PSG, Frakkland eigi aðeins einn óvin og það er Ísland.

Ousmané Dembélé og Lucas Hernández hafa báðir verið að glíma við meiðsli, að sögn PSG, en voru samt valdir í landsliðshópinn. Dembélé meiddist síðan í leik Frakklands gegn Úkraínu á föstudag og verður frá í mánuð hið minnsta. Þá meiddist Desiré Doué einnig, óvænt, en Hernández tók ekki þátt.

PSG var mjög ósátt við að Dembélé og Hernández hafi verið valdir og sendi formlega kvörtun til franska knattspyrnusambandsins þar sem óskað var eftir breyttum starfsháttum hjá læknateymi landsliðsins.

Landsliðsþjálfarinn Deschamps var spurður út í kvörtunina og hvort köldu blési milli landsliðsins og PSG. Hann þvertók fyrir það.

„Þetta er búið og gert. Ég er miður mín yfir því hvernig fór með Ousmane og Dez, meiðslanna vegna og vegna þess að við missum tvo lykilleikmenn, en við höndluðum allt af fagmennsku eins og við gerum með alla leikmenn.

Því miður gerðist þetta og meiðslin urðu hjá tveimur leikmönnum PSG, en PSG er ekki óvinur okkar og hefur aldrei verið. Þrátt fyrir að hagsmunir okkar stangist á. Ísland er eini óvinur okkar.“

Deschamps var þá spurður hvort hann myndi bregðast við gagnrýninni og breyta starfsháttum læknateymisins, en hann sagði enga vankanta að finna þar.

„Samkvæmt reglum skiluðu allir leikmenn inn skýrslu um líkamlegt ástand. Þar voru aðeins tveir meiddir leikmenn, William Saliba og Rayan Cherki, sem ég valdi ekki vegna þess að þeir eru meiddir“ sagði Deschamps og gaf þar í skyn að hvorki PSG né leikmennirnir hefðu látið vita af meiðslum áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×