Erlent

Tölvuleikjaspilandi táningur tekinn í dýr­linga­tölu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Þessi stóra mynd af Carlo Acutis blasti við á torgi heilags Péturs.
Þessi stóra mynd af Carlo Acutis blasti við á torgi heilags Péturs. EPA

Ítalskur piltur sem lést einungis fimmtán ára gamall árið 2005 úr hvítblæði var tekinn í dýrlingatölu af kaþólsku kirkjunni í dag. Hann er þar með fyrsti dýrlingurinn af þúsaldarkynslóðinni.

Pilturinn, sem hét Carlo Acutis, fæddist í Bretlandi en bjó í Mílanó. Hann er sagður hafa haft unun af tölvuleikjum og verið snjall á tölvur, en á netinu deildi hann áhuga sínum á kaþólskri trú og hlaut fyrir vikið viðurnefnið „Áhrifavaldur Guðs“.

Til þess að vera dýrlingur í augum kaþólsku kirkjunnar þarf almennt að vera hægt að tengja tvö kraftaverk við viðkomandi.

Árið 2020 féllst kirkjan á að Acutis hefði verið valdur að kraftaverki sjö árum áður. Þá var brasilískur drengur sagður hafa læknast af sjúkdómi sem hann fæddist með eftir að móðir drengsins bað til Acutis.

Kirkjan viðurkenndi síðan annað kraftaverk tengt Acutis fyrr á þessu ári vegna atvika sem áttu sér stað í fyrra. Þá hafði stúlka frá Kosta Ríka fallið af hjóli á Flórens, þar sem hún stundaði nám. Móðir hennar er sögð hafa beðið fyrir dóttur sinni við gröf Acutis og hún hlotið bata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×