Íslenski boltinn

„Ekkert auð­velt fyrir þann sem fer í hans skó“

Sindri Sverrisson skrifar
Patrick Pedersen skoraði að meðaltali mark í leik eða þar um bil, í sumar.
Patrick Pedersen skoraði að meðaltali mark í leik eða þar um bil, í sumar. vísir

Patrick Pedersen, markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar í fótbolta, spilar ekki meira með Val á þessari leiktíð eftir að hafa slitið hásin í úrslitaleik Mjólkurbikarsins. Stúkumenn ræddu um hvað Valsmenn gætu gert án Danans.

Valsmönnum tókst að vinna 4-3 sigur gegn Aftureldingu í gær, í fyrsta leik eftir tapið gegn Vestra í bikarúrslitaleiknum, þrátt fyrir að hafa verið 2-0 undir í hálfleik. Jónatan Ingi Jónsson, Aron Jóhannsson og Tryggvi Hrafn Haraldsson skoruðu allir, sem og Markus Nakkim, og það er ljóst að meira mun mæða á þeim í markaskorun á næstunni ætli Valur sér að landa Íslandsmeistaratitlinum.

Patrick var búinn að skora 18 mörk í 19 leikjum og hjálpaði Val í gegnum erfiðan kafla í upphafi tímabils:

„Hann tók bara að sér að skora mörkin og var „á eldi“. Það er ekkert auðvelt fyrir þann sem fer í hans skó, í hans stöðu, því þetta er mesti markaskorari í deildinni,“ sagði Ólafur Kristjánsson í Stúkunni í gær, rétt eftir leik Vals og Aftureldingar. Sagðist Ólafur þar hafa séð tvær hliðar á Valsliðinu en að Jónatan og Tryggvi hefðu „stigið upp“.

Rökrétt að hafa Tryggva fremst frekar en Aron

Þá var sá möguleiki ræddur að Aron Jóhannsson, sem á sínum tíma raðaði inn mörkum sem framherji í sterkum deildum í Evrópu, færi í fremstu víglínu í stað Patricks:

„Ef þú spyrð mig þá hefði ég ekki gert það. Mér fannst rökréttari breyting að setja Tryggva fram,“ sagði Baldur Sigurðsson og hélt áfram:

„Hins vegar er ég sammála því að hafa Aron framar. Spila í „tíunni“ eins og í kvöld. Komast nær teignum. Þetta var ekkert erfiðasta mark í heimi sem hann skoraði en hann hefur róna, yfirsýnina og gæðin til að vera rólegur í þessu færi og klára það. Hann er með gæðin til að vera þarna í holunni og mata leikmenn, þegar hann fær boltann í þröngt svæði milli varnar og miðju. Mér fannst rökrétt hjá Túfa að stilla upp eins og hann gerði í kvöld,“ sagði Baldur.

„Sammála. Hann er á þessum stað á ferlinum. Hann hefur ekki það að geta ógnað inn fyrir, en hann getur komið í seinni bylgjunni,“ sagði Ólafur og bætti við:

„Tryggvi steig ekkert sérstaklega inn í þetta hlutverk í bikarúrslitaleiknum en þetta var annað í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×