Skoðun

Lærum að lesa og reikna

Jón Pétur Zimsen skrifar

Hlutverk grunnskóla er skýrt: að kenna börnum að lesa, reikna og hugsa. Að undirbúa þau til þátttöku í lýðræðissamfélagi þar sem þau geta gagnrýnt og myndað sér upplýstar skoðanir og viðhorf til hinna ýmsu mála.

Börn og foreldrar verða að geta fylgst með hvernig gengur að tileinka sér þá þekkingu sem lestur og reikningur krefjast. Börn og foreldrar verða að skilja þá endurgjöf sem skólinn veitir, hvað gengur vel og hvað þarf að bæta. Fáir tengja við eða skilja einkunnir grunnskólanna enda viðurkenna margir kennarar að þeim finnst matskerfið flókið og ógegnsætt.

Ríkisstjórnin ræðir menntamál svo gott sem ekkert en það sem komið hefur fram hjá ráðherra er að honum ,,finnist kerfið fínt“ sem, Samfylkingin vill engu breyta og Viðreisn bara þegir. Þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru í raun viðurkenning að þau skilja hvorki vandann né vilja ræða hann enda börn í aftursætinu hjá þessu fólki.

Staðan er grafalvarleg þegar 40% nemenda er ekki með grunnfærni í lesskilningi eftir 10 ára skyldunám en samt útskrifast meginþorri nemenda með einkunnina B. Hér fara ekki saman hljóð og mynd og forystumenn menntamála forðast allar mælingar eins og heitan eldinn - sem gerir það nær ómögulegt fyrir foreldra og samfélagið að átta sig á alvöru stöðunni enda fær meginþorri nemenda einkunnina B/grænan sem fáir skilja.

Þetta er ekki aðeins vanræksla – þetta eru svik við börnin okkar.

Við erum með kerfi sem skilar ekki árangri, er með óskiljanlegt námsmat og bregst þeim sem mest þurfa á að halda:

  • með kennsluaðferðum sem virka ekki
  • matskerfi sem fáir skilja
  • ónýtri aðalnámskrá
  • ótta við mælingar
  • áherslu á tískuhugtök í stað raunfærni
  • slakt 5 ára kennaranám

Þessi staða grunnskólans er ekki einkamál valdamanna. Lífsgæði barna eru í húfi og framleiðni landsins getur minnkað á næstu misserum um 250-500 milljarða árlega skv. OECD. Lífsgæði okkar verða aldrei verðlögð en það er stórundarlegt að þessar tölur kalli ekki á almenn viðbrögð í samfélaginu og fjölmiðlum. Efri mörkin jafngilda rekstri allra leik- og grunnskólum landsins sem og öllu heilbrigðiskerfinu.

Það er löngu orðið tímabært að íslenskt samfélag setji börn og lífsgæði þeirra í fyrsta sæti og farið verði af þeirri braut sem sekkur börnum okkar og samfélagi dýpra og dýpra í ólæsi, vangetu í stærðfræði og hundruð milljarða kostnað.

Á meðan sitja þeir sem eiga að bera ábyrgðina og segja við foreldra og börn ,,að víst sé þetta allt gott“, þau bara skilji þetta ekki. Þessir sömu aðilar hafa svo ekki hugmynd um hvernig snúa skuli skipinu við með hag barna og samfélagsins alls að leiðarljósi.

Það er lágmarkskrafa að börnin okkar kunni að lesa og reikna eftir grunnskólann.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi skólastjóri.




Skoðun

Sjá meira


×