Erlent

Buðu ferða­mönnum upp á „stjarnferðalag“ með heimablönduðu froskaeitri

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Uppkastsföturnar eru víst staðalbúnaður í andlegum athvörfum.
Uppkastsföturnar eru víst staðalbúnaður í andlegum athvörfum. Guardia Civil

Spænska lögreglan gerði rassíu í tveimur andlegum athvörfum í austurhluta Spánar. Lögregla handtók þrjá og lagði hald á ellefu lítra af ayahuasca, 117 Sanpedrókaktusplöntur og nokkrar flöskur af froskaeitri. Öll eru þetta efni sem hafa ofskynjunaráhrif. Athvörfin græða á tá og fingri með því að selja „stjarnferðalög.“

Samkvæmt umfjöllun Guardian hafði spænska lögreglan haft fyrirtækið sem rak athvörfin til rannsóknar í um fimm mánuði. Um er að ræða tvö sveitarbýli í sveitarfélaginu Pedreguer í Alicante-héraði. Fyrirtækið auglýsti sig á internetinu sem viðurkennt andlegt heilsusetur sem bauð upp á „hefðbundin lækningameðul“ sem nutu mikilla vinsælda meðal evrópskra ferðamanna.

Möluðu gull á andlegum ferðamönnum

Í tilkynningu frá spænsku lögreglunni greinir hún frá að athvörfin hafi boðið upp á þriggja og fimm daga ferðapakka sem kostuðu þúsund evrur að meðaltali og fólu í sér gistingu og efnin sem tekin voru.

Umrætt froskaeitur.Guardia Civil

Ferðirnar samanstóðu af allt að 20 manns í senn sem leiddir voru í „stjarnferðalög“ af sex starfsmönnum fyrirtækisins. Slíkar ferðir fóru fram nokkrum sinnum í viku og drógu rannsakendur þá ályktun að hópurinn hefði aflað sér hundruð þúsunda evra á síðasta ári - mestmegnis í reiðufé sem ekki var gefið upp og því skildi ekki eftir sig nein bókhaldsspor. Margir bankareikningar voru notaðir í ýmsum löndum,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Frumstæð tilraunastofa

Sextán gestir voru í athvarfi á vegum fyrirtækisins þegar rassían fór fram en lögreglan tekur fram að á vettvangi hafi ekki verið viðunandi aðstaða til að bregðast við ofskammti eða eitrun. Efnin hafi verið undirbúin undir neyslu í frumstæðri tilraunastofu.

Auk ofskynjunarefnanna lagði lögregla hald á 945 töflur af rítalíni og hinar ýmsu plöntuafurðir sem voru sendar á rannsóknarstofu til efnagreiningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×