Enski boltinn

Sonur Rooney á hraðri upp­leið hjá Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Kai Rooney með föður sínum Wayne Rooney á verðlaunahátíð.
 Kai Rooney með föður sínum Wayne Rooney á verðlaunahátíð. Getty/ JMEnternational

Kai Rooney er að skapa sér eigið nafn hjá unglingaliðum Manchester United.

Sonur Wayne Rooney er bara fimmtán ára gamall en hefur nú verið kallaður upp í nítján ára liðið.

Hann fer með nítján ára liði United í æfingamót til Króatíu sem er hið virta mót Mladen Ramljak Tournament.

Kai Rooney getur spilað sem framherji, svokölluð nía, en einnig út á köntunum.

Hann er þarna að hoppa upp um þrjá flokka en það gerir hann eftir flotta frammistöðu með sextán ára liði Manchester United á móti í Norður Írlandi í síðustu viku.

Kai skoraði bæði og lagði upp þegar United fór í úrslitaleikinn en tapaði þar reyndar fyrir Sunderland.

Nú fær hann tækifæri til að spila við stráka sem eru fjórum árum eldri en hann á einu sterkasta unglingamóti Evrópu í þessum aldursflokki.

Mótið fer fram í Zagreb og er í umsjón stórklúbbsins Dinamo.

Wayne Rooney, faðir hans, varð ungur að stjörnu hjá Everton. Hann var aðeins sextán ára þegar hann kom inn á sem varamaður og skoraði frábært mark á móti Arsenal, fimm dögum fyrir sautján ára afmælið sitt.

Hann hafði áður lagt upp mark á móti Tottenham og skoraði tvö mörk í sigri á Wrexham í deildabikarnum.

Mancheser United keypti síðan Rooney þegar hann var bara átján ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×