Körfubolti

NBA stjarna borin út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Malik Beasley er góður leikmaður en er í algjöru rugli utan vallar.
Malik Beasley er góður leikmaður en er í algjöru rugli utan vallar. Getty/Gregory Shamus

NBA körfuboltamaðurinn Malik Beasley þurfti að finna sér nýjan gististað á miðvikudaginn eftir að hann var borinn út úr íbúðinni sinni.

Leigusalinn hans vísaði Beasley á dyr fyrir að borga ekki leiguna sína.

Lífið er enginn dans á rósum þessa dagana hjá hinum 28 ára gamla körfuboltamanni. Beasley glímir við peningavandræði og er auk þess til rannsóknar hjá Alríkislögreglunni.

Beasley hefur aflað sextíu milljónum dollara á NBA ferlinum, meira en sjö milljarða króna, og ætti því að öllu eðlilegu ekki að hafa miklar fjárhagsáhyggjur. Staðan er hins vegar önnur.

Leigusalinn hefur kært Beasley tvisvar á þessu ári fyrir að borga ekki leiguna. Beasley gerði ekkert til að bregðast við því.

Hann bjó í íbúð í fjölbýlishúsinu The Stott.

Beasley skuldar meira en 21 þúsund Bandaríkjadali í leigu eða 2,6 milljónir króna.

Úrburðurinn var staðfestur af dómstól í Detriot.

Beasley var leikmaður Detroit Pistons og félagið ætlaði að bjóða hinum nýjan 42 milljón dollara samning fyrir næstu þrjú árin eftir að hann skoraði 16,3 stig í leik á síðustu leiktíð.

Félagið hætti hins vegar við þegar fréttist að Alríkislögreglan, FBI, væri að rannsaka hann fyrir veðmálabrask tengdu leikjum í NBA. Það er því óvíst hvort hann fái að spila í NBA á næstu leiktíð og hann gæti jafnvel lent í fangelsi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×