Fótbolti

Sæ­var Atli hetja Brann sem er í góðum málum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sævar Atli og Eggert Aron voru báðir í byrjunarliði Brann.
Sævar Atli og Eggert Aron voru báðir í byrjunarliði Brann. Brann

Sævar Atli Magnússon hefur byrjað af krafti hjá sínu nýja liði Brann. Hann skoraði bæði mörkin í frábærum 2-0 útisigri á Häcken í 3. umferð forkeppni Evrópudeildar karla í fótbolta.

Það byrjaði reyndar ekki vel hjá Brann í kvöld þegar heimamenn skoruðu eftir aðeins tvær mínútur en markið sem betur fer dæmt af. Skömmu síðar fékk Sævar Atli gult spjald og þurfti því að passa sig það sem eftir lifði leiks.

Eftir rétt rúman stundarfjórðung fengu gestirnir frá Bergen vítaspyrnu. Joachim Soltvedt fór á punktinn en brenndi af. Sem betur fyrir Soltvedt, og Brann, var Sævar Atli á skotskónum þegar rétt tæpur hálftími var liðinn, staðan 0-1 í hálfleik.

Sævar Atli fagnar öðru marka sinna í kvöld.Brann

Á 57. mínútu bætti Sævar Atli við öðru marki sínu og öðru marki gestanna eftir undirbúning Ulrik Mathisen. Staðan orðin 0-2 og reyndust það lokatölur. Lærisveinar Freys Alexanderssonar eru því í frábærum málum fyrir síðari leik liðanna sem fram fer í næstu viku.

Sævar Atli spilaði allan leikinn og Eggert Aron var tekinn af velli þegar ein mínúta var til loka venjulegs leiktíma.

Elías Rafn Ólafsson stóð vaktina í marki Midtjylland sem fór frá Jótlandi á Danmörku til Noregs og mætti Fredrikstad í sömu keppni. Lokatölur 3-1 gestunum í vil. 

Markvörðurinn átti fínan leik í marki Midtjylland og mögulega gefur frammistaðan honum leið inn í liðið á ný eftir að hafa setið á bekknum það sem af er tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×