Veður

Úr­komu­svæði fer yfir sunnan- og vestan­vert landið

Atli Ísleifsson skrifar
Hitinn á landinu verður tíu til átján stig. Hlýjast verður norðaustantil á landinu.
Hitinn á landinu verður tíu til átján stig. Hlýjast verður norðaustantil á landinu. Vísir/Vilhelm

Dálítið lægð suðvestur af landinu hreyfist austur á bóginn og mun úrkomusvæði hennar fara yfir sunnan- og vestanvert landið í dag.

Á vef Veðurstofunnar segir að úrkoman nái þó ekki Norðausturlandi, þar sem verði hlýjast í dag. Hitinn á landinu verði tíu til átján stig.

„Lægðin kemur næst landi í kvöld, en þá hvessir heldur norðvestantil og úrkoma eykst að sama skapi um landið vestanvert. Norðlægar áttir verða síðan ríkjandi fram á laugardag með vætu, einkum norðantil og smám saman kólnandi veður. Þó ber að hafa í huga að veðurspár geta úrelst snögglega, einkum þegar smálægðir eru á sveimi kringum landið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Austlæg eða breytileg átt, 5-10 m/s og dálitlar skúrir eða rigning, en úrkomuminna norðaustantil. Hiti 6 til 15 stig, mildast á Vesturlandi.

Á föstudag: Norðlæg átt, 5-13 m/s, hvassast vestast og rigning með köflum, en rofar smám saman til sunnan heiða. Kólnar heldur norðanlands.

Á laugardag: Norðvestlæg átt, 5-10 m/s og dálítil væta um landið norðanvert, en þurrt að mestu sunnantil. Lægir víða og léttir til þegar líður á daginn. Hiti víða 10 til 15 stig.

Á sunnudag: Hæglætisveður og skýjað með köflum, en víða síðdegisskúrir og milt veður.

Á mánudag: Útlit fyrir vaxandi sunnanátt með rigningu sunnan- og vestantil og hlýnar í veðri.

Á þriðjudag: Líklega breytilegar áttir með vætu í öllum landshlutum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×