Fótbolti

Segir Messi á­kaf­lega ósáttan með leik­bannið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi má ekki spila næsta leik með Inter Miami vegna þess að hann spilaði ekki Stjörnuleik deildarinnar.
Lionel Messi má ekki spila næsta leik með Inter Miami vegna þess að hann spilaði ekki Stjörnuleik deildarinnar. Getty/Simon Bruty

Meðeigandi Inter Miami segir að Lionel Messi sé ákaflega ósáttur með að vera dæmdur í eins leiks bann fyrir að skrópa í Stjörnuleik MLS deildarinnar.

Messi mætti ekki í leikinn þrátt fyrir að vera valinn og afsökunin var mikið leikjaálag hjá Inter Miami eftir að liðið spilaði í heimsmeistarakeppni félagsliða inn á miðju tímabili. Messi var búinn að spila fimm leiki á mjög stuttum tíma og taldi sig þurfa hvíld.

Jorge Mas, meðeigandi Inter Miami, ræddi viðbrögð Messi við leikbanninu.

„Lionel Messi er ákaflega ósáttur eins og við öll hjá okkar félagi. Við erum ósátt með að hann fái ekki að spila með liðinu í næsta leik,“ sagði Jorge Mas.

„Við þurfum bara öll að þjappa okkur saman og mæta með hugarfarið að þetta séu við á móti öllum í heiminum,“ sagði Mas.

Messi var ekki eini leikmaður Inter Miami sem mætti ekki í Stjörnuleikinn og Jordi Alba var líka dæmdur í eins leiks bann.

Báðir missa þeir af leiknum á móti FC Cincinnati.

Samkvæmt reglum MLS deildarinnar fá leikmenn eins leiks bann fyrir að mæta ekki í Stjörnuleikinn og það er greinilega enginn Séra Jón hjá bandarísku deildinni.

„Mér finnst að þessi refsing sé einfaldlega grimmdarleg,“ sagði Mas.

„Auðvitað voru þeir Messi og Alba ekki sáttir. Þeir eru keppnismenn og vilja spila þennan leik. Þess vegna komu þeir hingað. Til að spila og til að vinna. Þeir átta sig á mikilvægi þessa leiks,“ sagði Mas.

„Þeirra viðbrögð voru nákvæmlega eins og hjá tveimur keppnismönnum sem skilja ekki þessa ákvörðun og hvernig að fjarvera í sýningarleik kalli á slíkt leikbann,“ sagði Mas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×