Atvinnulíf

Erfitt að vera mikið einn í vinnu og án mikilla sam­skipta

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það eru ótrúlega margir sem starfa meira og minna einir allan daginn og án mikilla samskipta. Flest okkar þekkjum einhvern og um að gera að vera vakandi yfir því sem stuðningsnet. Því það að vera mikið einn í vinnunni er erfitt.
Það eru ótrúlega margir sem starfa meira og minna einir allan daginn og án mikilla samskipta. Flest okkar þekkjum einhvern og um að gera að vera vakandi yfir því sem stuðningsnet. Því það að vera mikið einn í vinnunni er erfitt. Vísir/Getty

Við gerum okkur oft ekki grein fyrir því hvað það eru margir sem vinna einir. Til dæmis í lítilli verslun eða sjoppu, iðnaðarmenn, fólk í sérhæfðum störfum eins og þýðendur eða fólk í fjarvinnu. Fólk í viðgerðarþjónustu og fleira.

Enda flest fyrirtæki lítil eða meðalstór. Ekki bara á Íslandi heldur almennt í heiminum. Í norskri rannsókn frá árinu 2017 kemur til dæmis fram að 25% starfandi fólks vinnur eitt meira og minna allan daginn. Eða sem nemur að minnsta kosti 75% vinnutímans.

Sem svo sem passar. Því ef við gefum okkur til dæmis verslun þar sem starfsmaður er einn, koma dagar þar sem nánast engir koma í búðina allan daginn. Fyrr en kannski seinnipartinn.

Og það þá ef veðrið er sæmilegt því á veturna getur veðrið líka haft þau áhrif að fáir ef nokkrir kíkja við heilu og hálfu dagana.

Samkvæmt fyrrgreindri rannsókn í Noregi aukast líkur á slysum og líkamlegum skaða þegar fólk vinnur svona mikið eitt.

En það sem meira er: Andlegu áhrifin eru mikil.

Ekki aðeins að fólk upplifi einmanaleika og tómleika innra með sér, heldur getur einveran aukið á kvíða, leitt til þunglyndis og dregið úr afkastagetu fólks í vinnunni.

Sumir í þessum hópi eru atvinnurekendur. Vilja reka fyrirtækin sín, en upplifa þó ekkert síður en aðrir þessar sömu tilfinningar. Og finnst oft erfitt í ofanálag að hafa engan til að ræða við um vinnuna.

Sem betur fer eru nokkur góð ráð - sem er um að gera fyrir okkur öll að kynna okkur því flest okkar þekkjum einhvern sem vinnur mikið einn og er án mikilla samskipta flesta daga.

Dæmi:

Gott er að kortleggja vinnuvikuna þannig að það sé hægt að sjá á hvaða dögum eða tímum, einangrunin er hvað mest. Í framhaldinu að skoða hvernig er hægt að tryggja örugg og regluleg mannleg samskipti; við kúnna, birgja, vini, vandamenn.

Að tengjast fleirum í svipaðri stöðu getur verið mjög hvetjandi. Oft myndast svona tengsl í gegnum félagsstarf, til dæmis hópa eins og FKA, Kiwanis eða fleiri.

Ef það er ekki hægt að tryggja mannleg samskipti á staðnum, er um að gera að skipuleggja myndsímtöl þannig að það sé hægt að taka stutt spjall yfir einum kaffibolla og hlæja aðeins saman eða tala um daginn og veginn.

Vinnuveitendur sem reka fyrirtæki þar sem starfsfólk vinnur í mikilli einangrun eru líka hvattir til að vera meðvitaðir um þau áhrif sem það getur haft á fólk, að vera of mikið eitt í vinnunni. Ekki er nóg að halda að einhver vinnutengd verkefni eða viðbætur á verkefnalistann nægi til að sporna við þeim áhrifum sem rannsóknir sýna að einmanaleiki í vinnunni geti skapað.


Tengdar fréttir

Mjög mikilvægt að eiga besta vin í vinnunni

„Það getur svo sem vel verið að einhverjir vinnuveitendur hugsi sem svo; Mér er skítsama hvort fólk eigi einhvern besta vin í vinnunni, ég vil bara að fólk sé að vinna!“ nefnir Tómas Bjarnason sviðstjóri stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafar Gallup sem dæmi um viðhorf vinnuveitanda sem telur það ekki sitt hlutverk að spá í hvort starfsfólk eigi sinn besta vin í vinnunni.

Óöryggi, feimni og jafnvel einmanaleiki í nýju sumarvinnunni

Nú þegar líður að lok júní eru eflaust margir sumarstarfsmenn búnir að koma sér vel fyrir á nýja vinnustaðnum, þekkja verkefnin sín og spjalla við vinnufélaga. Og þó….það er þó ekkert endilega svo sjálfgefið.

Fjórða bylgjan: Einmana í fjarvinnu

Margir sáu fyrir sér í hillingum að í kjölfar sumarfría myndu vinnufélagar hittast á ný í ágúst. Á mörgum vinnustöðum eftir langa fjarveru teyma. En nú blasir við fjórða bylgjan og aftur stefnir í að fjöldi fólks fari inn í haustið í fjarvinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×