Fótbolti

Fékk gamlan mót­herja sinn til að gráta af gleði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ali Riley gat ekki haldið aftur af gleðitárunum þegar hún sagði frá sendingunni frá goðsögninni.
Ali Riley gat ekki haldið aftur af gleðitárunum þegar hún sagði frá sendingunni frá goðsögninni. Ali Riley

Nýsjálenska knattspyrnukonan Ali Riley sagði frá góðhjörtuðum gömlum mótherja sínum á samfélagsmiðlum sínum en sú sem um ræðir er ein stærsta goðsögnin í sögu kvennafótboltans.

Riley hefur leikið 163 landsleiki fyrir þjóð sína og tekið þátt í bæði Ólympíuleikum og heimsmeistarakeppni.

Á þeim tíma hafði hún safnað mörgum keppnistreyjum með því að skipta um treyjur við mótherja sína í leikslok.

Stór hluti safnsins hennar var geymdur hjá foreldrum hennar í Palisades í Los Angeles en það hús brann því miður í gróðureldunum miklu í byrjun ársins.

Riley hélt sérstaklega mikið upp á treyjuna sem hún fékk frá kanadísku goðsögninni Christine Sinclair sem er markahæsta landsliðskona allra tíma með 190 mörk. Sú treyja brann í eldunum og Riley sá mikið eftir henni.

Sinclair heyrði af þessu og var fljót til að árita og senda henni aðra treyju í staðinn.

Riley sagði frá sendingunni sem hún fékk frá Kanada og táraðist við það að segja frá góðverki goðsagnarinnar.

„Fótboltasamfélagið er svo sannarlega það besta í heimi. Ég átti treyjusafn sem ég geymdi í húsi foreldra minna. Þetta voru treyjur sem ég hafði skipts á við mótherja eftir leiki á HM og ÓL. Ég átti líka eina treyju af öllum gerðum sem ég spilaði í fyrir Nýja-Sjáland. Allar útgáfur frá 2006 til dagsins í dag,“ sagði Riley.

„Sú treyja sem mér þótti einna mest vænt um var Christine Sinclair treyjan sem við skiptumst á eftir leik okkar á HM 2011. Og í dag fékk ég sendan þennan pakka,“ sagði Riley og sýndi áritaða treyju frá Sinclair. Tárin fóru að renna. Hún þurfti að taka sér smá hlé en kom svo aftur.

Hér fyrir neðan má sjá Riley segja frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×