Fótbolti

Ætla að spila HM-leikina meira innan­húss næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, með Donald Trump Bandarikjaforseta og konu hans Melaniu Trump á úrslitaleik HM félagsliða í gær.
Gianni Infantino, forseti FIFA, með Donald Trump Bandarikjaforseta og konu hans Melaniu Trump á úrslitaleik HM félagsliða í gær. Getty/Chip Somodevilla

Mikill hiti og hvert þrumuveðrið á fætur öðru settu mikinn svip á heimsmeistarakeppni félagsliða í fótbolta sem lauk í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Margir höfðu í framhaldinu áhyggjur af HM landsliða í Bandaríkjunum á næsta ári en FIFA hefur fundið lausnina.

Gianni Infantino, forseti FIFA, ræddi áhyggjur fólks af krefjandi veðuraðstæðum í Bandaríkjunum næsta sumar. Infantino sagði að leikirnir sem fara fram í Bandaríkjunum fari að stórum hluta fram innanhúss því FIFA leggi nú kapp á að fjölga leikjum sem fara fram undir þaki.

Hitinn var 28,8 gráður á selsíus þegar úrslitaleikurinn fór fram MetLife Stadium í New Jersey í gærkvöldi og hitinn var 35,5 gráður þegar annar undanúrslitaleikurinn fór fram.

Alþjóða leikmannasamtökin, FIFPRO, gáfu það út að þrír leikjanna á mótinu, hefðu aldrei átt að fara af stað vegna of mikils hita. Réttast hefði verið að seinka þeim þar til að hitinn minnkaði.

Enzo Fernández, miðjumaður Chelsea, skoraði á FIFA að gera eitthvað í þessu því honum hefði svimað í hitanum og leikmenn væru að setja sjálfan sig í talsverða hættu í þessum aðstæðum.

Hvert þrumuveðrið á fætur öðru þýddi líka að gera þurftu hlé á mörgum leikjum. Chelsea lenti meðal annars í tveggja klukkutíma hléi.

Infantino segir að lausnin sé meðal annars að færa fleiri leiki á mótinu undir þak. Það þýðir að fleiri leikir munu fara fram í borgum eins og Atlanta, Dallas, Houston og Vancouver.

„Við skoðum alla gagnrýni og rannsökum málið. Við erum alltaf að finna hvað við getum gert betur,“ sagði Infantino.

„Auðvitað er hitinn að skapa vandamál. Á síðasta ári, á Ólympíuleikunum í París, þá þurfti líka íþróttafólk úr öllum íþróttum að keppa í miklum hita,“ sagði Infantino.

„Það er mikilvægt að leikmenn fái hlé til að kæla sig niður og drekka en svo sjáum við hvað við getum gert. Við höfum leikvanga með þaki og við munum án efa nota þessa velli á næsta ári,“ sagði Infantino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×