Fótbolti

Júlíus meiddur og Tómas tekinn inn í landsliðshópinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Júlíus Mar er meiddur. Tómas Orri tekur hans sæti í undir 21 árs landsliðinu.
Júlíus Mar er meiddur. Tómas Orri tekur hans sæti í undir 21 árs landsliðinu. vísir / anton

Júlíus Mar Júlíusson, leikmaður KR í Bestu deild karla, er meiddur og hefur dregið sig úr íslenska undir 21 árs landsliðshópnum fyrir komandi verkefni í Egyptalandi. Tómas Orri Róbertsson, leikmaður FH, var valinn í hans stað.

Júlíus Mar, sem á að baki einn landsleik fyrir u21 og þrjá landsleiki fyrir u19, hefur glímt við lærismeiðsli á tímabilinu. Hann missti af fyrstu tveimur deildarleikjunum, fór síðan meiddur af velli í hálfleik gegn Aftureldingu í sjöundu umferð og var utan leikmannahópsins gegn Fram í síðustu umferð.

Óvíst er hversu lengi hann verður frá en hann mun hið minnsta ekki taka þátt í leik KR gegn Vestra næsta sunnudag eða í landsleikjunum tveimur sem framundan eru gegn Egyptalandi og Kólumbíu. Báðir leikir fara fram í Kaíró í Egyptalandi, 6. og 9. júní næstkomandi.

Landsliðsþjálfarinn Ólafur Ingi Skúlason hefur kallað Tómas Orra Róbertsson, miðvörð FH, inn í hópinn í hans stað. Um verður að ræða fyrstu landsleiki á ferli Tómasar.

Tómas hefur verið lykilmaður í liði FH en hann kom til félagsins frá Breiðablik eftir að hafa verið að láni hjá Grindavík og Gróttu í Lengjudeildinni síðastliðin tvö tímabil.

Tómas hefur byrjað alla átta deildarleiki tímabilsins í miðri vörn FH og skorað eitt mark, gegn ÍA í þarsíðustu umferð. Markið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×