Fótbolti

Ten Hag tekinn við af Alonso

Sindri Sverrisson skrifar
Erik ten Hag er búinn að skrifa undir samning við Manchester United.
Erik ten Hag er búinn að skrifa undir samning við Manchester United. Bayer Leverkusen

Hollendingurinn Erik ten Hag, sem rekinn var frá Manchester United í vetur, var í dag kynntur sem nýr þjálfari Leverkusen.

Ten Hag tekur við starfinu af Xabi Alonso sem ráðinn hefur verið þjálfari Real Madrid, eftir brotthvarf Carlo Ancelotti sem tekinn er við brasilíska landsliðinu.

Ten Hag tekur við Leverkusen sem næstbesta liði Þýskalands í vetur. Í fyrra landaði liðið þýska meistaratitlinum í fyrsta sinn, án þess að tapa einum einasta leik, og varð raunar tvöfaldur meistari því liðið vann einnig bikarkeppnina. 

Ten Hag var rekinn frá United í október, snemma á sinni þriðju leiktíð með liðið. Hann náði þó að koma liðinu tvívegis í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar, og vinna hana í seinna skiptið, auk þess að vinna einnig enska deildabikarinn. 

Áður hafði þessi 55 ára Hollendingur náð frábærum árangri með Ajax og til að mynda komið liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 2019.

Ten Hag hefur áður starfað í Þýskalandi því hann bar ábyrgð á varaliði Bayern München árin 2013-15 þegar Pep Guardiola stýrði aðalliði félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×