Körfubolti

Siakam sjóð­heitur þegar Pacers komst í 2-0

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pascal Siakam gaf tóninn fyrir Indiana Pacers gegn New York Knicks í nótt.
Pascal Siakam gaf tóninn fyrir Indiana Pacers gegn New York Knicks í nótt. getty/Dustin Satloff

Pascal Siakam skoraði 39 stig þegar Indiana Pacers sigraði New York Knicks, 109-114, í öðrum leik liðanna í úrslitum Austurdeildar NBA í nótt. Pacers leiðir einvígið, 2-0, og næstu tveir leikir fara fram á heimavelli liðsins.

Siakam byrjaði leikinn af miklum krafti, skoraði fyrstu ellefu stig Pacers og sautján stig í 1. leikhluta. Kamerúninn endaði með 39 stig sem er það mesta sem hann hefur skorað í leik í úrslitakeppni á ferlinum.

Sex leikmenn Indiana skoruðu tíu stig eða meira í leiknum. Tyrese Haliburton, hetja liðsins í fyrsta leiknum í einvíginu, skoraði fjórtán stig, tók átta fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Myles Turner skoraði sextán stig, þar af þrettán í 4. leikhluta.

Indiana hefur nú unnið sex útileiki í röð í úrslitakeppninni og getur klárað einvígið og komist í úrslit NBA í fyrsta sinn í aldarfjórðung með sigri í næstu tveimur leikjum á heimavelli. Rick Carlisle, þjálfari Pacers, er samt með báða fætur á jörðinni.

„Það eru margar gildrur þarna. Þú getur ekki búist við að það verði auðvelt að fara heim. Það er aldrei svoleiðis. Þetta verður alltaf erfiðara eftir því sem þú ferð lengra í úrslitakeppninni. Og New York býr yfir ótrúlegum baráttuanda,“ sagði Carlisle.

Jalen Brunson skoraði 36 stig og gaf ellefu stoðsendingar í liði Knicks. Mikal Bridges og Karl-Anthony Towns voru með sitt hvor tuttugu stigin.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×