Íslenski boltinn

Upp­bótartíminn: „Ég hef miklar á­hyggjur af þeim“

Sindri Sverrisson skrifar
Kjartan Atli kom með þrjár spurningar fyrir Lárus Orra og Albert sem þurftu að koma með skjót svör.
Kjartan Atli kom með þrjár spurningar fyrir Lárus Orra og Albert sem þurftu að koma með skjót svör. Stöð 2 Sport

Sérfræðingarnir í Stúkunni á Stöð 2 Sport fengu þrjár spurningar í Uppbótartímanum eftir að hafa krufið til mergjar leikina í sjöttu umferð Bestu deildar karla.

Þeir Albert Brynjar Ingason og Lárus Orri Sigurðsson hafa gert það að ákveðinni listgrein að vera ósammála og voru því að sjálfsögðu ekki sammála þegar þeir fengu spurninguna um hvort að þeir hefðu áhyggjur af Skagamönnum, eftir 6-1 skellinn gegn Val.

„Þeir sem horfðu á klippurnar mínar áðan sjá að ég hef miklar áhyggjur af þeim,“ sagði Albert en umræðuna má sjá hér að neðan. Einnig var spurt um hvaða leikmenn hefðu hækkað mest í virði og hvaða lið væri best í deildinni.

Klippa: Uppbótartíminn í Stúkunni

En í umræðunni um Skagamenn var Albert svo sannarlega með áhyggjur:

„Í fyrstu tveimur leikjunum fannst mér ég sjá sömu gildi. Það var erfitt að brjóta þá niður, þeir unnu fyrsta leikinn, en í þremur af síðustu fjórum leikjum hafa þeir sýnt ótrúlega veikt hugarfar. Gegn Vestra, KR og nú Val.

Í síðustu tveimur útileikjum hafa þeir fengið ellefu mörk á sig og skorað eitt. Maður horfir líka á markaðinn. Þeir leystu það ekki að Hinrik [Harðarson] færi. Haukur er búinn að spila þarna. Albert er búinn að spila þarna…“ sagði Albert áður en tími hans var á þrotum.

Lárus Orri tók þá við og sagði um Skagamenn:

„Ég hef engar stórar áhyggjur af þeim. Auðvitað eru vissir hlutir þarna ekki góðir og Jón Þór [Hauksson, þjálfari] þarf að vinna í. En félagið er vel stætt og ég hef trú á að þeir styrki sig í glugganum. Ég held að þeir verði í neðri hlutanum. Þeir fara ekki í neina Evrópubaráttu en þeir verða ekki heldur í neinni fallbaráttu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×