Lífið

Skrýtið að sjá mann­fjöldann syngja með á ís­lensku

Rafn Ágúst Ragnarsson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Bræðurnir hlakka til að koma fram annað kvöld og lofa veislu.
Bræðurnir hlakka til að koma fram annað kvöld og lofa veislu. Vísir/Bjarki

Væbbræður, þeir Matthías og Hálfdán, eru að eigin sögn sjúklega spenntir fyrir morgundeginum þegar þeir stíga fyrstir allra á stokk í fyrri undankeppni Eurovision. Þeir eru hæstánægðir með að vera fyrstir og lofa veislu.

Í dag fór fram svokallað dómararennsli og strákarnir segja það hafa gengið eins og í sögu.

„Þetta var bara fullkomið. ég er svo peppaður að gera þetta bara nákvæmlega eins á morgun því þetta var bara geðveikt,“ segir Hálfdán.

Hann segir stórskrítið að sjá mannfjöldann syngja með lagi þeirra á íslensku.

„Það gerir svo mikið að hafa áhorfendur. Það er svo mikill munur að sjá alla vera að hoppa og syngja með. Það er líka svo goofy að sjá eitthvað lið syngja með. Þetta er íslenska, skilurðu, það er ógeðslega skrýtið en það er ógeðslega skemmtilegt,“ segir hann.

Þeir bræður eru báðir sammála um að það sé gott að stíga fyrstir á svið. Salurinn verði búinn að bíða óþreyjufullur og spennustigið hátt. Svo skemmir það ekki fyrir að vera alltaf fyrstir þegar atriðin eru endursýnd fyrir áhorfendur heima sem verða kannski enn ekki búnir að ákveða hvaða atriði hljóti þeirra atkvæði.

Það gengur allt eins og sögu?

„Það er bara nákvæmlega þannig. Þetta verður veisla á morgun,“ segir Matthías.

„Ég er ótrúlega stoltur af þessu atriði, stoltur af bróður mínum,“ segir Hálfdán.

„Og ég er stoltur af öllu liðinu í heild sinni. Þetta er sjúklega mikil vinna sem er búin að fara í þetta. Þetta er ekki bara við tveir. Þetta er risabatterí,“ segir Matthías þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.