Fótbolti

Ís­lensku stelpurnar redduðu málunum fyrir Kristianstad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir tryggði Kristianstad þrjú stig í dag.
Alexandra Jóhannsdóttir tryggði Kristianstad þrjú stig í dag. Getty/Alex Nicodim/

Kristianstad vann 3-2 endurkomusigur á Vittsjö í sænsku kvennadeildinni í fótbolta í dag þar sem íslenskar landsliðskonur lönduðu sigrinum með mörkum í seinni hálfleik.

Vittsjö var 2-1 yfir í leiknum þegar klukkutími var liðinn af leiknum.

Katla Tryggvadóttir var með fyrirliðabandið hjá Kristianstad og hún jafnaði metin á 66. mínútu.

Þremur mínútum síðar kom Alexandra Jóhannsdóttir liði Kristianstad yfir þegar hún skallaði boltann í markið eftir hornspyrnu Viktoriu Persson.

Beata Olsson kom Kristianstad í 1-0 á 26. mínútu en gestirnir frá Vittsjö svöruðu með mörkum þeirra Önnu Haddock og Sofie Rewucha.

Katla og Alexandra voru báðar í byrjunarliðinu en Guðný Árnadóttir kom inn á sem varamaður á milli markanna og nældi sér í gult spjald undir lokin.

Þetta var fyrsta deildarmark Kötlu á tímabilinu en annað deildarmarkið hjá Alexöndru.

Guðrún Arnardóttir var með fyrirliðabandið hjá Rosengård sem vann 2-1 sigur á Norrköping.

Hanna Andersson kom Rosengård yfir á 27. mínútu en Norrköping jafnaði með sjálfsmarki í uppbótatíma fyrri hálfleiks. Staðan var 1-1 fram á 74. mínútu þegar Emilia Larsson kom Rosengård aftur yfir. Það reyndist vera sigurmarkið í leiknum.

María Ólafsdóttir Gros og félagar í Linköping töpuðu 2-1 á heimavelli á móti Djurgården. María nældi sér í gult spjald í leiknum en liðið skoraði jöfnunarmark sjö mínútum fyrir leikslok. Það dugði þó ekki því gestirnir tryggðu sér sigurinn á þriðju mínútu í uppbótatima.

Rosengård er í fjórða sæti deildarinnar með þrettán stig, Kristianstad er í fimmta sæti með þremur stigum minna en Linköping er svo í tólfta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×