Fótbolti

Ísak góður þegar Düsseldorf hélt voninni á lífi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson og Valgeir Lunddal Fridriksson unnu lífsnauðsynlegan sigur í dag.
Ísak Bergmann Jóhannesson og Valgeir Lunddal Fridriksson unnu lífsnauðsynlegan sigur í dag. Getty/Lars Baron

Íslendingaliðið Fortuna Düsseldorf vann loksins sigur í þýsku b-deildinni í dag eftir allt of mikið af jafnteflum síðustu vikur.

Düsseldorf vann þá 2-0 heimasigur á nágrönnum sínum í Schalke 04.

Liðið var búið að gera þrjú jafntefli í röð en þessi sigur kemur liðinu upp í fimmta sætið. Düsseldorf er tveimur stigum frá þriðja sætinu og gæti náð því gangi allt upp í lokaumferðinni. Ekkert nema sigur dugði í dag.

Düsseldorf hefur vissulega ekki tapað deildarleik síðan í lok mars en þessi sex töpuðu stig í síðustu þremur jafnteflisleikjum vega þungt.

Dawid Kownacki kom Düsseldorf í 1-0 á 57. mínútu og Myron van Brederode bætti við öðru marki á 78. mínútu.

Ísak Bergmann Jóhannesson var að venju inn á miðju Düsseldorf og spilaði vel. Reyndi tvö skot og bjó til eitt gott færi.

Valgeir Lunddal Fridriksson kom inn á sem varamaður á 81. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×