Íslenski boltinn

Ingvar gerir ráð fyrir að vera klár í næsta leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingvar Jónsson hefur leikið með Víkingi síðan 2020.
Ingvar Jónsson hefur leikið með Víkingi síðan 2020. vísir/diego

Markvörðurinn Ingvar Jónsson fór meiddur af velli þegar Víkingur sigraði Fram í Bestu deild karla í gær. Hann segir að meiðslin séu ekki alvarleg og gerir ráð fyrir að vera klár í næsta leik Víkinga.

Eftir þrjá leiki í röð án sigurs í deild og bikar vann Víkingur 3-2 sigur á Fram í Víkinni í gær. Ingvar fór af velli þegar þrettán mínútur voru eftir, í stöðunni 2-1.

„Þetta var bara einhver stífleiki framan í læri sem fór ekki þannig ég tók enga sénsa. Ég held að ég sé ekki tognaður og býst ekki við að þetta sé alvarlegt,“ sagði Ingvar í samtali við Vísi í dag.

Hann segist ekki hafa fundið fyrir eymslum í aðdraganda leiksins.

„Alls ekki. Þetta kom bara allt í einu í seinni hálfleik. Ég var bara ferskur og góður þannig var mjög óvænt og ég hef aldrei lent í þannig ég ákvað að taka enga sénsa.“

Ingvar hittir sjúkraþjálfara seinna í dag. Hann gerir fastlega ráð fyrir því að vera klár fyrir næsta leik Víkings sem er gegn FH á sunnudaginn.

„Ég býst ekki við að þetta sé langur tími. Stefnan er að vera klár í næsta leik,“ sagði Ingvar.

Víkingur er á toppi Bestu deildarinnar með tíu stig líkt og Vestri og Breiðablik. Ingvar segir að Víkingar séu ágætlega sáttir með byrjunina á tímabilinu.

„Þetta hefur verið upp og ofan. Við þurftum að koma okkur í gang eftir tapið í Eyjum og fyrir Aftureldingu. Þetta var smá sjokk fyrir liðið,“ sagði Ingvar.

„Menn eru tjaslast saman. Stórir og mikilvægir leikmenn hafa verið á meiðslalistanum en ég hef trú á að við náum að stilla saman strengina aftur og spila betur. Það er gríðarleg breidd í liðinu og menn sem hafa komið inn hafa staðið sig gríðarlega vel. En auðvitað eru þetta stór högg, eins og með Aron Elís Þrándarson og fleiri. Þetta hefur reynt á hópinn en á heildina litið hefur þetta verið allt í lagi og við erum bjartsýnir fyrir framhaldið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×