Körfubolti

„Of­boðs­lega með­vitaður um að ég eigi ekki marga svona leiki eftir“

Sindri Sverrisson skrifar
Hlynur Bæringsson var Just wingin' it maður leiksins í Garðabæ í gær og viðurkenndi að hann þekkti kjúklingavængjastaðinn ansi vel.
Hlynur Bæringsson var Just wingin' it maður leiksins í Garðabæ í gær og viðurkenndi að hann þekkti kjúklingavængjastaðinn ansi vel. Stöð 2 Sport

„Ég er í alvörunni þakklátur fyrir að fá að vera 42 ára og geta átt sæmilegan leik,“ sagði Hlynur Bæringsson, gamli landsliðsfyrirliðinn sem enn lætur til sín taka á körfuboltavellinum og er kominn í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.

Hlynur mætti í settið til sérfræðinganna í Bónus Körfuboltakvöldi strax eftir sigur Stjörnunnar í oddaleik gegn Grindavík í gær og fór vel yfir málin eins og sjá má í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Hlynur Bærings í setti eftir sigur í oddaleik

Hlynur átti svo sannarlega sinn þátt í sigrinum í gær en hver var lykillinn að því?

„Ég reyndi að sofa eins mikið og ég mögulega gat,“ sagði Hlynur léttur. „Ég var bara eins og björn. Ég bæði svaf út og lagði mig sem gerist aldrei hjá mér. Ég reyndi bara að hvíla mig sem allra mest og svo hugsa um leikinn, hvað ég gæti gert til að hjálpa liðinu mínu,“ sagði Hlynur og bætti við:

„Ég er í þeirri stöðu núna að þetta hefði auðvitað getað verið síðasti leikurinn minn. Mig langaði að standa mig fyrir liðið mitt og mæta svolítið léttur til leiks, tilbúinn að keppa og gleyma mér,“ sagði Hlynur.

Horfði upp í stúku og fylltist þakklæti

Pavel Ermolinskij, sem lagði skóna á hilluna fyrir þremur árum en er þó fimm árum yngri en Hlynur, vildi vita hvernig tilfinningin væri að hafa haft svona mikil áhrif á oddaleik í undanúrslitum, fyrir mann sem verður 43 ára í sumar.

„Þetta var alveg ólýsanlegt. Ég er ofboðslega meðvitaður um það að ég eigi ekki marga svona leiki eftir,“ sagði Hlynur og hélt áfram:

„Ég horfði upp í stúku fyrir leik, bæði Grindavíkur- og Stjörnumegin… þetta hljómar kannski skringilega en ég var í alvörunni þakklátur fyrir að fá að vera 42 ára og geta átt sæmilegan leik. Það er ekki þannig á þessum aldri að líkaminn sé alltaf bara „on it“ þegar þig langar að keppa og geta hjálpað. Ég var bara þakklátur fyrir það.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×