Innlent

Bætir í vind og úr­komu í kvöld

Samúel Karl Ólason skrifar
Bæta á í vind og úrkomu í kvöld. Vindurinn á að ná allt að átján m/s á morgun.
Bæta á í vind og úrkomu í kvöld. Vindurinn á að ná allt að átján m/s á morgun. Vísir/Anton

Von er á áframhaldandi súld og rigningu víða um landi í dag. Þurrt verður þó á norðaustanverðu landinu. Veðurstofan spáir sunnan 5-13 m/s og hita frá sjö til tólf stigum, nema fyrir norðan þar sem hitinn gæti náð átján stigum.

Bæta á í vind og úrkomu sunnan- og vestanlands í kvöld.

Á morgun spáir Veðurstofa Íslands svo suðvestan 10-18 m/s og á að verða hvassast í vindstrengjum á norðurhelmingi landsins. Áfram verður þurrt norðaustantil, skúrir vestanlands en rigning og súld á sunnanverðu landinu.

Spákort fyrir klukkan tvö í dag.Veðurstofa Íslands

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Sunnan og suðvestan 10-18 m/s, hvassast norðvestantil. Bjart með köflum norðaustanlands, annars rigning en dregur úr vætu og vindi síðdegis. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á norðaustanverðu landinu.

Á fimmtudag: Sunnan 8-13 og rigning með köflum, en úrkomulítið norðaustantil á landinu. Hiti 6 til 14 stig. Suðvestan 10-18 um kvöldið og skúrir eða él á vestanverðu landinu og kólnar.

Á föstudag: Suðvestan 10-18 og skúrir eða él, en yfirleitt þurrt og bjart norðaustanlands. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á laugardag: Vestan og suðvestan 5-13 og skúrir eða él, en bjartviðri á austanverðu landinu. Áfram svalt í veðri.

Á sunnudag: Vestlæg átt, víða þurrt veður og bjart með köflum. Hiti 7 til 13 stig yfir daginn.

Á mánudag: Suðvestanátt og bjartviðri, en skýjað með köflum á Suður- og Vesturlandi. Hlýnar heldur í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×