Fótbolti

Glódis Perla spöruð á bekknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir og Klara Bühl fagna þýska bikarmeistaratitlinum á dögunum.
Glódís Perla Viggósdóttir og Klara Bühl fagna þýska bikarmeistaratitlinum á dögunum. Getty/Ralf Ibing

Glódís Perla Viggósdóttir sat allan tímann á varamannabekknum þegar Bayern München vann nauman útisigur á næst neðsta liði deildarinnar í þýsku Bundesligunni.

Bayern München vann þarna 1-0 sigur á Carl Zeiss Jena sem hefur aðeins unnið tvo deildarleiki á leiktíðinni. Varnarmaðurinn Michelle Ulbrich skoraði eina mark leiksins einni mínútu fyrir leikslok.

Bayern konur höfðu tryggt sér titla í tveimur síðustu leikjum sínum. Þær urðu þýskir meistarar eftir 3-1 sigur á Freiburg 27. apríl og svo þýskir bikarmeistarar eftir 4-2 sigur á Werder Bremen í bikarúrslitaleiknum 1. maí.

Glódís Perla kom inn á sem varamaður og skoraði þriðja markið í sigrinum á Freiburg og spilaði svo allan bikarúrslitaleikinn.

Hún hefur verið að glíma við meiðsli og var hvíld á bekknum í kvöld enda ekkert undir í þessum leik.

Bayern hefur þar með unnið 18 af 21 deildarleik sínum og er með átta stiga forskot á Wolfsburg fyrir lokaumferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×