Körfubolti

Mesta rúst í sögu NBA

Sindri Sverrisson skrifar
Donovan Mitchellmeð boltann en Haywood Highsmith reynir að trufla hann, í sigrinum stóra hjá Cleveland Cavaliers gegn Miami Heat í gærkvöld.
Donovan Mitchellmeð boltann en Haywood Highsmith reynir að trufla hann, í sigrinum stóra hjá Cleveland Cavaliers gegn Miami Heat í gærkvöld. Getty/Megan Briggs

Cleveland Cavaliers sýndi einstaka yfirburði þegar liðið sló út Miami Heat og kom sér í undanúrslit austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta.

Cleveland vann leik liðanna í gærkvöld með 55 stiga mun, 138-83, og þar með einvígið 4-0. Samanlagður munur í leikjum liðanna var 122 stig sem er mesti munur í sögu úrslitakeppninnar. Fyrra metið var frá 2009 þegar Denver vann New Orleans með samtals 121 stigs mun.

Sigurinn í gær var sérstaklega stór og um leið stærsta tap Miami í úrslitakeppni. Það næststærsta var með 37 stigum, einnig í þessu einvígi við Cleveland.

Donovan Mitchell skoraði 22 stig fyrir gestina frá Cleveland í gær, De‘Andre Hunter skoraði 19, Ty Jerome 18 og Evan Mobley 17.

„Við komum hingað með aðeins eitt markmið og það var að kæfa þá gjörsamlega og halda því áfram allar 48 mínúturnar,“ sagði Mitchell við TNT eftir leik.

Cavaliers mæta annað hvort Milwaukee Bucks eða Indiana Pacers í næstu umferð en Pacers eru 3-1 yfir í því einvígi.

Golden State Warriors komu sér í 3-1 gegn Houston Rockets með 109-106 heimasigri. Jimmy Butler sneri aftur í lið Warriors eftir meiðsli og skoraði 14 af 27 stigum sínum í fjórða leikhluta. Brandin Podziemski setti niður sex þrista og skoraði samtals 26 stig.

Fimmti leikurinn er annað kvöld í Houston.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×