Íslenski boltinn

ÍA og Vestri mætast inni

Sindri Sverrisson skrifar
Vestramenn spila innanhúss þegar þeir mæta á Akranes á miðvikudaginn.
Vestramenn spila innanhúss þegar þeir mæta á Akranes á miðvikudaginn. vísir/Anton

Leikur ÍA og Vestra í 3. umferð Bestu deildar karla í fótbolta hefur verið færður inn í Akraneshöllina.

Í tilkynningu Skagamanna segir að ákvörðunin sé vegna stöðunnar á Akranesvelli og að haft hafi verið gott samráð við KSÍ og Vestra:

„Grassérfræðingar telja Akranesvöll ekki leikfæran að svo stöddu og að leikur á vellinum á þessum tímapunkti gæti skaðað hann til lengri tíma. Því var tekin sú ákvörðun í góðu samráði við KSÍ og Vestra að spila leikinn innandyra.“

Leikurinn fer fram á miðvikudagskvöld klukkan 18.

Í fyrra léku Skagamenn fyrstu tvo heimaleiki tímabilsins í Akraneshöllinni og unnu fyrst Fylki, 5-1, en töpuðu svo 2-1 fyrir FH.

Á vef KSÍ kemur einnig fram að leikur ÍBV og Fram í Vestmannaeyjum verði leikinn á Þórsvelli, líkt og þegar Eyjamenn slógu Víkinga út úr Mjólkurbikarnum á fimmtudaginn, á meðan að beðið er eftir því að Hásteinsvöllur verði klár. KR-ingar hafa svo þurft að byrja leiktíðina á að spila heimaleiki sína á AVIS-vellinum í Laugardal, á meðan að framkvæmdir standa yfir á Meistaravöllum.

Þriðja umferð Bestu deildar:

Miðvikudagur 23. apríl:

18.00 ÍA - Vestri

18.00 Valur - KA

18.00 FH - KR

19.15 Breiðablik - Stjarnan

Fimmtudagur 24. apríl:

17:00 ÍBV - Fram

19.15 Afturelding - Víkingur R.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×