Körfubolti

Þrír að­stoða Pekka með lands­liðið

Sindri Sverrisson skrifar
Daníel Andri Halldórsson, Ólafur Jónas Sigurðsson og Emil Barja verða aðstoðarþjálfarar kvennalandsliðsins.
Daníel Andri Halldórsson, Ólafur Jónas Sigurðsson og Emil Barja verða aðstoðarþjálfarar kvennalandsliðsins. KKÍ

Í kjölfar þess að Finninn Pekka Salminen var á dögunum ráðinn nýr þjálfari A-landsliðs kvenna í körfubolta, til næstu fjögurra ára, hafa þrír öflugir Íslendingar verið ráðnir til að aðstoða hann.

Ólafur Jónas Sigurðsson, Emil Barja og Daníel Andri Halldórsson verða aðstoðarþjálfarar landsliðsins næstu tvö árin, samkvæmt frétt á vef KKÍ í dag.

Allir hafa þeir þjálfað í Bónus-deild kvenna í vetur en Ólafur Jónas er þjálfari Stjörnunnar, Emil þjálfari Hauka og Daníel Andri þjálfari Þórs á Akureyri.

Fyrsta verkefni þeirra verður 14.-24. ágúst þegar íslenska landsliðið kemur saman í æfingabúðir, til undirbúnings fyrir undankeppni EuroBasket 2027. Dregið verður í riðla 23. júlí næstkomandi og mun drátturinn fara fram í München í Þýskalandi. 

Fyrstu leikirnir verða í landsleikjaglugganum sem verður spilaður 12.-18. nóvember. Það verða þá fyrstu mótsleikirnir undir stjórn Pekka Salminen sem er 61 árs og hefur komið víða við á ferlinum. Hann þjálfaði meðal annars kvennalandslið Finnlands árunum 2015-23 og var aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins 2001-14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×