Tæknidagur fjölskyldunnar hófst núna klukkan 12:00 og stendur til klukkan fjögur í dag en dagskráin fer fram í Verkmenntaskólanum í Neskaupstað og í íþróttahúsi staðarins. Petra Lind Sigurðardóttir, verkefna- og gæðastjóri Verkmenntaskóla Austurlands er verkefnisstjóri dagsins.
„Megin áherslan á þessum degi er náttúrulega að kynna fyrir gestum og gangandi tækni og nýsköpun og námið okkar hér í VA og fleira. Við erum svo heppin að hér kemur fjöldi fyrirtækja og er með okkur í dagskránni í dag,“ segir Petra.
Þetta er flott framtak hjá ykkur.
„Já, þetta er bara frábært framtak og við erum mjög stolt af því að það sé verið að halda þennan dag núna hátíðlegan í tíunda skipti.“
Petra segir að Vísindasmiðja Háskóla Íslands og Vísindasmiðja Háskólans á Akureyri taki þátt í dagskrá dagsins, sem verða með þrautir og tilraunir fyrir krakkana og svo verður Sprengju Kata á staðnum, sem verður með allskonar efnafræðitilraunir í sérstökum bás í íþróttahúsinu svo eitthvað sé nefnt.

Áttu von á mikilli aðsókn í dag?
„Já, við eigum von á fjölda gesta og vonumst bara til að sjá, sem allra flesta í dag. Mig langar að segja að við eigum von á hátt í þúsund manns í dag til okkar.Það er frítt inn og allir velkomnir og það eru veitingar hérna á staðnum og eitthvað fyrri alla,“ sagði Petra Lind.
