Í færslu á Facebook greindu Grindvíkingar frá því að byrjað væri að slá Stakkavíkurvöll, heimavöll Grindavíkur, til að gera hann kláran þegar keppni í Lengjudeildinni hefst.
Í færslunni segir að völlurinn komi ágætlega undan vetri og spretta á honum sé með ágætum. Völlurinn verður svo gataður og sandaður á næstunni.
Grindavík mætir Selfossi á útivelli í 1. umferð Lengjudeildarinnar föstudaginn 2. maí. Viku seinna er svo komið að fyrsta heimaleiknum, gegn Fjölni.
Grindvíkingar léku í Safamýri á síðasta tímabili þar sem ekki var hægt að leika á Stakkavíkurvelli vegna jarðhræringa.
Á þriðjudaginn hófst eldgos nálægt Grindavík. Um var að ræða ellefta eldgosið á Reykjanesskaga síðan 2021 og það áttunda á Sundhnúksgígaröðinni. Bærinn var svo rýmdur í kjölfarið en íbúum var hleypt aftur inn í bæinn eftir að gosinu lauk.